152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[22:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Bara til þess að taka af allan vafa þá var þetta ákvæði á sínum tíma sett í íslensk lög, ekki vegna skyldu okkar til að innleiða einhverjar Evrópureglur eða annað, ég vil tryggja að það sé ekki neinn misskilningur um það, heldur kemur það inn að beiðni lögregluyfirvalda á Íslandi í kjölfar umræðu um að þetta væri nú þrælsniðugt. Nú býður tæknin upp á þetta og þá skulum við bara fylgjast vandlega með fólki og passa að þessar upplýsingar séu til ef við skyldum þurfa á þeim að halda. Það er ekkert óeðlilegt í rauninni við það að valdhafar óski eftir meiri völdum. Þess vegna þarf alltaf að taka slíkum beiðnum af mikilli gagnrýni og með aðhaldi. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir, hvort þetta ákvæði sé þarna inni vegna þess að fólk hafi ekki spáð í það eða hvort það sé meðvitað þarna inni, þá langar mig að benda á að hér á þessu þingi hefur ítrekað verið flutt frumvarp um að afnema ákvæðið úr núgildandi lögum og það hefur ekki komist til umræðu.