152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

umhverfi fjölmiðla.

[16:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Í ríkjum þar sem lýðræði, gagnsæi og tjáningarfrelsi njóta ekki tilskilinnar verndar verða blaðamenn og annað fjölmiðlafólk oft fyrir miklum ofsóknum. Þegar verst lætur óttast fólk, sem er í því hlutverki að upplýsa almenning um stöðu og gang mála í samfélaginu, beinlínis um líf sitt og hefur ástæðu til. En slíkar ofsóknir eru ekki alltaf jafn augljósar og þær sem koma fram í beinu líkamlegu ofbeldi. Pólitískir fangar eru sjaldnast fangelsaðir fyrir skoðanir sínar samkvæmt ákæruskjali. Sjónum er beint að einhverju allt öðru; þeir eru saksóttir og jafnvel fangelsaðir fyrir háttsemi sem þeir gætu hugsanlega hafa viðhaft eða hafa viðhaft en er í engu samræmi við skilgreiningu á hinni refsiverðu háttsemi. Sakir eru beinlínis lognar upp á þá eða falsaðar og að sjálfsögðu fullyrt af hálfu stjórnvalda að ofsóknirnar hafi ekkert með vinnu þeirra að gera.

Fyrir stuttu voru nokkrir blaðamenn boðaðir í skýrslutöku hér á landi vegna rannsóknar á meintum brotum gegn friðhelgi einkalífs. Málið á rætur að rekja til umfjöllunar blaðamannanna í fjölmiðlum um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja, en fréttirnar sem þessi blaðamenn fluttu voru unnar upp úr gögnum sem vörpuðu ljósi á hvernig um umrædda blaðamenn hafði verið njósnað og árásir skipulagðar á þá. En í stað þess að rannsaka þær njósnir og skipulögðu árásir og ofsóknir voru umræddir blaðamenn boðaðir til skýrslutöku vegna brots sem hvorki er vitað að hafi verið framið eða af hverjum og allt það, og fullyrt að sjálfsögðu að þetta hefði ekkert með þeirra vinnu að gera. Þetta er auðvitað eitthvað sem við þurfum að taka mjög alvarlega og skoða mjög alvarlega. (Forseti hringir.)

Annað sem ég vil nefna í þessari umræðu sem við erum í hér varðar rekstrargrundvöll fjölmiðla. (Forseti hringir.) Það er töluvert um að fjársterkir aðilar fari í tilhæfulausar málshöfðanir gegn fjölmiðlafólki, mál sem vitað er fyrir fram að muni tapast en veldur fjölmiðlafólki fjártjóni. (Forseti hringir.) Þetta er viðvarandi vandamál sem ógnar fjölmiðlafrelsi á þessu landi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka mjög alvarlega og er mikilvægur punktur í þessa umræðu.

(Forseti (OH): Ég minni hv. þingmenn á ræðutíma, sem er skipt jafnt á milli þingmanna.)