Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Samkeppni er alla jafna og almennt til þess fallin að bæta stöðu neytenda og að því leytinu til má segja að sá liður hangi þar í og með þegar kemur að breytingum á eignarhaldi banka þar sem hið opinbera, ríkið, er enn þá með mest eignarhald í fjármálastarfsemi á Íslandi innan OECD. Það er staða sem ég vil gjarnan sjá breytast ansi hratt og fagna því þess vegna að við séum að taka þau skref, enda óeðlilegt að vera í þeirri stöðu til lengri tíma.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hin hefðbundna fjármálastarfsemi og bankastarfsemi eins og við þekkjum hana muni taka miklum breytingum á næstu misserum árum og áratugum. Þar skiptir líka ný tækni og nýsköpun mjög miklu máli og ég held að það muni stuðla að því að það verði fjölbreyttara form og ekki eingöngu hið hefðbundna. Þetta þurfa fjármálastofnanir, sem við höfum hér, líka að skilja og hreyfa sig og haga sér samkvæmt því til að eiga möguleika á að lifa af í því umhverfi og þeirri samkeppni. Að því leytinu til eru það líka rök fyrir því að ríkið eigi ekki að eiga banka heldur sé það betur til þess fallið að einkageirinn finni út úr því hvernig best sé að standa í slíkri samkeppni. Þegar til þess er litið er kannski alveg hægt að horfa framan í þær breytingar, og hvort þær eru tímabundnar eða varanlegar þori ég ekki að segja til um, þ.e. þegar kemur að fjármálastarfsemi annars staðar frá, utan okkar landsteina, og hvernig við erum farin að nýta tækni og erlend fyrirtæki í einhverjum fjármálaflutningum, fyrir utan síðan bálkakeðjur, hvort þær eru komnar til að vera eða hvort það er eitthvert tímabil sem fjarar út. Þannig að ég held nú að samkeppni á fjármálamarkaði muni aukast frekar en hitt.