Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn o.fl.

463. mál
[17:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd tvær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 24. september 2021 á sviði fjarskipta.

Með ákvörðun nr. 274/2021 er felld inn í EES-samninginn reglugerð um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta sem kallaður er BEREC, eða á ensku, með leyfi forseta, Body of European Regulators for Electronic Communications. BEREC er m.a. ætlað að stuðla að samræmdri innleiðingu og framkvæmd fjarskiptaregluverks í Evrópu. Auk þess er það hlutverk BEREC að gefa út álit ef upp koma álitaefni tengd fjarskiptamálum þvert á landamæri aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Við slíkar aðstæður eru fjarskiptaeftirlitsstofnanir viðkomandi ríkja skuldbundnar til að leita álits hjá BEREC og taka fyllsta tillit til þess álits við ákvörðunartöku.

BEREC-reglugerðin kveður jafnframt á um hámarkssmásöluverð á millilandasímtölum og smáskilaboðum innan EES, sem koma til viðbótar við þær reglur sem þegar gilda um hámarksverð fyrir reikiþjónustu á svæðinu.

Með ákvörðun nr. 275/2021 er felld inn í EES-samninginn tilskipun um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti, einnig kölluð Kóðinn. Þetta er ný grunngerð á sviði fjarskipta sem leysir af hólmi fjórar gildandi tilskipanir sem íslensk fjarskiptalöggjöf byggir að miklu leyti á.

Markmiðið með tilskipuninni er í fyrsta lagi að hrinda í framkvæmd innri markaði fyrir fjarskiptanet og fjarskiptaþjónustu. Á það m.a. að leiða til víðtækari útbreiðslu og upptöku afkastamikilla háhraðaneta, bættrar samkeppni og aukins öryggis neta og þjónustu. Einnig er tilgangurinn að tryggja að í EES sé framboð af hágæðaþjónustu öllum aðgengileg á viðráðanlegu verði, þökk sé virkri samkeppni og valkostum. Jafnframt að bregðast við aðstæðum þar sem markaðurinn uppfyllir ekki þarfir endanotenda með fullnægjandi hætti, svo sem í tilviki fatlaðs fólks, og tryggja að það hafi aðgang að þjónustu til jafns við aðra.

Með tilskipuninni verður heildsöluverð fyrir lúkningu símtala og smáskilaboð ákveðið fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið.

Báðar fyrrnefndar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kölluðu á aðlögun fyrir EFTA-ríkin innan EES í samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Almennt séð er eftirlit með framkvæmd fjarskiptalöggjafar falið lögbæru stjórnvaldi í hverju ríki innan EES. Í ákvarðanatöku sinni ber þeim að taka fyllsta tillit til þess álits BEREC. Að því marki sem regluverkið gerir ráð fyrir að ákvörðunarvald verði í höndum framkvæmdastjórnar ESB gagnvart ESB-ríkjum, verður það í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA, sem er ESA, hvað EFTA-ríkin varðar. Eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna, sem er þá Fjarskiptastofa í tilviki Íslands, munu taka fullan þátt í starfsemi BEREC, þó án atkvæðisréttar. Við afgreiðslu mála er afstaða EFTA-ríkjanna skráð sérstaklega.

Þessar aðlaganir eru í samræmi við fyrri fordæmi, afstöðu stjórnvalda og á þann veg sem upplýst var um í samráðsferli við Alþingi við upptöku gerðarinnar. Nánar er fjallað um aðlaganirnar í þingsályktunartillögunni.

Utanríkismálanefnd, meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og umhverfis- og samgöngunefnd fjölluðu um gerðirnar á sínum tíma í upptökuferlinu. Nefndirnar gerðu ekki athugasemdir við upptöku þeirra í EES-samninginn á þeim forsendum sem ákvarðanirnar kveða á um.

Virðulegi forseti. Ákvarðanirnar kalla á lagabreytingar hér á landi. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra mælti fyrir frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga þann 25. mars síðastliðinn, ég vísa til máls 461. Um er að ræða endurflutt frumvarp að ræða sem ekki náði fram að ganga á síðasta löggjafarþingi. Tilskipunin um setningu evrópskra reglna um rafræn fjarskipti verður innleidd með þeim lögum. Alþingi hefur þegar samþykkt heimild um innleiðingu BEREC-gerðarinnar með setningu reglugerðar.

Innleiðing gerðanna hér á landi mun fela í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð og er nánar gerð grein fyrir þeim kostnaði í fyrrnefndu frumvarpi og meðfylgjandi tillögu til þingsályktunar.

Evrópsk fjarskiptalöggjöf hefur verið hluti af EES-samningnum frá upphafi en frá gildistöku samningsins hefur orðið hröð þróun á sviði fjarskiptamála vegna örra tækniframfara og alþjóðlegs eðlis starfseminnar. Að sama skapi hafa reglur innri markaðarins tekið breytingum til að bregðast við þróuninni og starfsemi þvert á landamæri. Aukið samstarf eftirlitsaðila á innri markaðnum og samræmdar reglur hafa skapað skýrari ramma og tækifæri fyrir fyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Það hefur leitt til bættra kjara fyrir neytendur, svo sem vegna reikigjalda og verið mikilvægur vettvangur til samráðs fyrir íslenska eftirlitsaðila. Þessar Evrópureglur sem hér eru til umræðu eru því hluti af þróun sem hefur verið til hagsbóta bæði fyrir fyrirtækin og neytendur.

Ég legg til, virðulegi forseti, að við lok þessarar umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.