Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn o.fl.

463. mál
[18:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Það er rétt hjá hv. þingmanni að mat háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis segir að hrein útgjaldaaukning ríkissjóðs vegna þessa sé um 165 millj. kr. á ári, en það getur dregið úr þessum kostnaði innan nokkurra ára. Það gætu komið tekjur á móti þegar kemur að frekari úthlutun á tíðnum fyrir 5G. Þá getur endurúthlutun á öllum tíðniheimildum við lok núgildandi gildistíma þeirra skilað allt að 750 millj. kr. í einskiptistekjur fyrir ríkissjóð. Þannig að eins og staðan er núna og til að gera það frumvarp að lögum eru gerðar ráðstafanir og það kemur síðan í ljós hver heildarfjárþörf verður eða hvaða aukin útgjöld þetta mun kalla á. Ef svo verður þá er hægt að gera ráðstafanir í uppfærðri fjármálaáætlun á næsta ári fyrir árin sem á eftir koma, bæði vegna þess að það verður þá svigrúm til þess að uppfæra fjármálaáætlun eins og venjan er á ári hverju og hins vegar liggur þá kannski frekar fyrir hver útgjaldaaukningin verður, ef einhver, og til hvers langs tíma þegar liggur fyrir hvort tekjur koma á móti og þá hversu miklar.