Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn o.fl.

463. mál
[18:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Þessi þingsályktunartillaga og það sem snýr að þessari BEREC-reglugerð og samstarfi mun eitt og sér, nei, ekki auka gæði eða tengingar þegar kemur að símasambandi um landið, sem er eitthvað sem við þurfum að gera bragarbót á og þarf í mínum huga að vera í lagi. Þótt það sé svo sem örugglega í ágætu standi í samanburði við önnur ríki, þá eigum við að hafa burði til að hafa það samband mjög gott úti um allt land. Það er alls ekki svo í dag. Það sem liggur fyrir er að við vitum ekki alveg enn þá hversu mikil útgjaldaaukningin verður og höfum svigrúm til að vega það og meta og uppfæra fjármálaáætlun að ári liðnu eins og ég skil þær upplýsingar sem koma frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Það er að hluta til um einskiptistekjur að ræða þannig að ef það er einhver viðvarandi kostnaður þá grípa náttúrlega einskiptistekjur það ekki. En hvað varðar vegasambandið er það í raun óskylt mál.