Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 171/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

500. mál
[18:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar stórt er spurt þá er það sem ég get upplýst að þetta er vissulega hluti af upptökuhallanum á sviði fjármálaþjónustu. Innleiðingarhalli er þegar við erum með mál sem við eigum eftir að klára að innleiða í EES-samninginn en hefur verið klárað af hálfu EES-nefndar og við þurfum að klára okkar hluta. Upptökuhallinn er síðan þegar sameiginlega EES-nefndin og okkar hluti eiga eftir að taka upp regluverk, tilskipanir eða reglugerðir í EES-samninginn. Þetta er hluti af upptökuhallanum á sviði fjármálaþjónustu. Í vinnunni við að vinna hann upp hefur verið unnið eftir ákveðinni forgangsröðun. Það er kannski kjarni svarsins. Það hefur verið unnið eftir ákveðinni forgangsröðun af því að hallinn hefur verið töluverður undanfarin ár. Það má þá lesa í það að fyrst þetta er frá 2015 en er núna fyrst að berast hingað inn, þá hafi þetta verið ansi neðarlega í þeirri forgangsröðun. Hvort þessi gerð hefði átt að vera í meiri forgangi en önnur skal ósagt látið. Ég er ekki alveg í stöðu til að svara því. Það er einhverju leyti háð mati fjármálaráðuneytisins og sömuleiðis samstarfsþjóða okkar innan EFTA sem aðild eiga að EES. Það kann að vera í raun blanda af öllum þessum þáttum sem ég ímynda mér að hafi spilað þarna inn í. Án þess að ég fullyrði nákvæmlega hver þessara þátta vegur þyngst þá er það svo að þessir þættir saman gera það að verkum að við erum að koma með þetta hingað inn núna.