152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[14:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Fram hafa stigið hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar og hver af öðrum reynt að gera lítið úr því sem átti sér stað um helgina þó að aðstoðarmaður hæstv. innviðaráðherra hafi slegið botninn úr hvað það varðar. Mig langar til að vekja athygli á því að við erum ekki eingöngu að tala um ummæli sem voru óheppileg eða annað slíkt. Árið 2018 setti Alþingi lög að frumkvæði hæstv. forsætisráðherra um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Samkvæmt lögunum er öll mismunun á öllum sviðum samfélagsins bönnuð, þar á meðal það sem skilgreint er sem áreitni. Áreitni er skilgreind sem hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Þetta eru lög sem hæstv. forsætisráðherra hafði frumkvæði að því að Alþingi setti. Það er augljóst að hæstv. innviðaráðherra hefur gerst brotlegur við þessi lög en það á að duga afsökunarbeiðni. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að hæstv. innviðaráðherra komi hingað og gefi yfirlýsingu á grundvelli 61. gr. laga um þingsköp Alþingis.