152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[14:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil fylgja aðeins eftir því sem hv. þm. Logi Einarsson minntist á áðan sem er frumvarp sem við erum að vinna núna í allsherjar- og menntamálanefnd og er breyting á þessum lögum sem hæstv. innviðaráðherra hefur núna gerst brotlegur við. Það vakti athygli mína við umræður um þær breytingar að lögin eins og þau gilda í dag og hafa gilt frá 2018 eiga bara við mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna. Nú er verið að bæta mismununarþáttum við, svo sem fötlun og öðrum þáttum sem valda því gjarnan að fólki er mismunað. Þessum lögum eins og þau eru í dag virðist ekki hafa verið beitt. Þeim virðist ekki hafa verið framfylgt. Það virðist ekki hafa verið gert neitt í framkvæmd og ég velti fyrir mér: Hvers vegna erum við að bæta við mismununarþáttum þegar hæstv. forsætisráðherra sjálfum, sem er að leggja þetta til, er greinilega alls ekki alvara með þessum lögum? Til hvers eru þessi lög ef þau gilda ekki einu sinni um ráðherra í hæstv. ríkisstjórn?