152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Á bls. 448 í þessu viðamikla plaggi segir um jafnréttis- og mannréttindamál, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn málaflokks jafnréttis- og mannréttindamála er að vera í fremstu röð og að hafa sjónarhorn jafnréttis að leiðarljósi þegar opinberar ákvarðanir eru teknar. Ísland vill vera í fremstu röð þegar kemur að jafnréttis- og mannréttindum. Meginmarkmið málaflokks jafnréttis- og mannréttindamála er að allar manneskjur eigi jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu.“

Til þess að ná þessum metnaðarfullu markmiðum ríkisstjórnarinnar hafa m.a. verið sett lög nr. 85/2018, um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Samkvæmt lögunum er hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna óheimil. Heyra fyrirmæli um mismunun þar einnig undir svo og um áreitni þegar hún tengist kynþætti eða þjóðernisuppruna. Svo eru ákvæði sem kveða á um bann við mismunun í tengslum við félagslega vernd, vörukaup og þjónustu, mismunun í skólum og uppeldisstofnunum og mismunun sem birtist í auglýsingum. Fyrir þinginu liggur nú frumvarp til laga um breytingar á þessum lögum þar sem til stendur að fjölga mismununarþáttum sem eru samkvæmt lögunum eins og staðan er í dag eingöngu kynþáttur og þjóðernisuppruni. Á að bæta við þeim þáttum sem ég taldi upp hér áðan. Við athugun málsins, í umræðum og upplýsingaöflun allsherjar- og menntamálanefndar sem ég sit í vegna þessa, vakti það athygli mína að svo virðist sem lítið hafi reynt á þessi lög ef nokkuð. Ég fann engan úrskurð, engan dóm. Ég gat ekki séð að nokkurt mál hafi komið til kasta viðeigandi stjórnvalda á grundvelli þessara laga. (Forseti hringir.)

Áður en við víkjum að fjárhagslegum hliðum langar mig því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji að (Forseti hringir.) þessi lög þjóni tilgangi sínum eða hvort það séu einhverjir vankantar þar.