152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Í vinnslu við fjármálaáætlun lagði ég mikla áherslu á að settir yrðu viðbótarfjármunir í öryggis- og varnartengd verkefni og þar undir falla þá netöryggismálin. Vissulega er það þannig að netöryggismálin heyra ekki að öllu leyti undir utanríkisráðuneytið, þau heyra sömuleiðis undir fjarskiptaráðuneyti og meira að segja að litlum hluta dómsmálaráðuneytið, og svo er það víðar annars staðar í stjórnkerfinu þar sem við þurfum að tryggja að rétt sé á málum haldið og þar er þjóðaröryggisráð svo sem einn þáttur líka.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að útgjaldaþörf mun vaxa, alla vega viðbótaráhersla og samstilling og líklega bæði fjárfesting í tækjum og þekkingu þegar kemur að netöryggismálum. Það er vaxandi ógn, ekki eingöngu vegna þess ástands sem nú er uppi, og við þurfum að gera betur í því. Við erum of neðarlega á lista og þurfum svo sem líka að greina nákvæmlega hvernig löndum er þar raðað en við eigum að setja markið hærra. Það stendur ekki allt og fellur með fjármunum eins og alla jafna er en það er alveg ljóst að það kallar á frekari fjármuni. Það kallar líka á að kerfin, stjórnkerfið og stofnanir o.s.frv. vinni betur saman og að við séum að auka sérfræðiþekkingu hjá okkur. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að netöryggismálin hjá okkur séu í lagi. Það er innanlandsmál þótt þetta sé hluti af fjölþáttaógnum og það sé mikið alþjóðasamstarf í því líka. Við höfum verið að taka réttar ákvarðanir í því eins og að vera þátttakendur í bæði setrinu í Tallinn og setrinu í Helsinki, sem skiptir okkur miklu máli. Ég fagna því að viðbótarfjármunir séu settir í öryggis- og varnartengd verkefni sem við síðan útfærum og reynum að nýta með sem bestum hætti til að efla netöryggismálin. Svo þarf að stilla betur saman strengi í stjórnkerfinu þannig að við náum frekari árangri.