152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hér spurningar sem er mjög góðra gjalda verð um það hvort lögð sé áhersla á það af okkar vina- og bandalagsþjóðum að við leggjum meira til öryggis- og varnarmála. Í rauninni má svara þeirri spurningu neitandi. Við tölum oft um að við séum sér á báti þegar kemur að bandalagsríkjum NATO vegna þess að við erum herlaus en það breytir ekki því að við eigum að spyrja okkur sjálf hvort við getum gert meira þegar kemur að öryggis- og varnartengdum verkefnum, bæði gagnvart öryggi okkar hér en sömuleiðis sem raunverulegir þátttakendur og stofnmeðlimir í Atlantshafsbandalaginu, sem er hlutverk sem við tökum bæði alvarlega og skiptir okkur máli. Að því leytinu til er svarið við því í mínum huga já. Þess vegna er ég ánægð að sjá að það fengust frekari fjármunir og við sjáum aukningu til öryggis- og varnarmála sem fer ekki í netöryggismál eingöngu heldur sömuleiðis í önnur verkefni sem eru varnartengd verkefni, eins og það að styrkja örugg samskipti milli Íslands og samstarfsþjóða, uppsetningu á öruggum fjarskiptarýmum, að mæta tekjufalli í rekstri öryggissvæðis í Helguvík og viðbragð við fjölþáttaógnum og sömuleiðis þegar kemur að útboði í tengslum við leigu ljósleiðara. Síðan eru ýmis verkefni, bæði viðhaldsverkefni og uppbyggingarverkefni og jafnvel ný verkefni sem Bandaríkjamenn, á grundvelli varnarsamnings okkar við Bandaríkin, hafa verið að líta til. Við erum sjálf að fara í fjárfestingu til að fjölga gistirýmum á svæðinu. Svo er spurning sem snertir kannski ekki endilega stríð í Úkraínu heldur hefur svo sem legið fyrir, en allir eru að endurskoða sín mál, bæði Atlantshafsbandalagið sem slíkt, bandalagsþjóðir, Bandaríkin, við sjálf og við eigum sjálf að vera óhrædd við að gera það, endurskoða, spyrja okkur hvað þarf og spyrja sjálf: Hvað höfum við fram að færa í þessu samstarfi? Við höfum það fram að færa að við erum á strategískt mjög mikilvægu svæði. (Forseti hringir.) Hér koma menn með loftrýmisgæslu, kafbátaeftirlit og annað slíkt. Við erum með mjög mikilvæga innviði sem við eigum að halda við en við eigum líka að taka á móti ef menn telja mikilvægt að fara í frekari fjárfestingar á svæðinu.