152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Við höfum áður rætt hér að það eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenskt hugvit, íslensk fyrirtæki, stór og smá, þegar kemur að útrás á sínum lausnum sem síðan geta skipt gríðarlega miklu máli fyrir fólk, svæði og lönd, bæði almennt en sérstaklega í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Að því leytinu til eru það báðir aðilar sem vinna og í leiðinni loftslagið. Við höfum verið með ákveðnar áherslur eins og nýtingu jarðhita og endurnýjanlega orku, sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs og vatna, sjálfbæra landnýtingu og jafnrétti kynja. Við notum þróunarsamvinnufjármagnið til þess, m.a. í fjölþjóðlegan loftslagssjóð Sameinuðu þjóðanna, aðlögunarsjóð, samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun og sjálfbæra orku fyrir alla o.s.frv. Við erum líka með ráðgjöf sem við veitum til alþjóðastofnana og þjálfum sérfræðinga í gegnum starfsskóla GRÓ sem auðvitað kostar sitt en skiptir mjög miklu máli þar sem við erum að framleiða sendiherra og hjálpa fólki, hjálpa svæðinu að hjálpa sér sjálfu með því að mennta fólk sem snýr aftur heim. En það er svo sannarlega þannig að við getum gert betur í þessu og það hefur verið gert undanfarin misseri. Ég hef lagt á það mikla áherslu að öll utanríkisþjónustan þurfi að venja sig mjög við það og það skiptir máli að vera með nýsköpunargleraugun á sér alla daga í öllum verkefnum, hvort sem það er innbyrðis í verkefnum innan utanríkisþjónustunnar eða í öllum öðrum verkefnum; þróunarsamvinnu, utanríkisviðskiptum, Íslandsstofu, alþjóðasamstarfi o.s.frv. Við eigum mörg mjög góð dæmi þess efnis en það er svo sannarlega þannig að hægt er að gera betur í því, sérstaklega ef litið er til þess að það á við um nýsköpunina alla.