152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns. Við munum þurfa að gera meira. Sömuleiðis tek ég undir með henni þegar kemur að því að auðvitað er jákvætt að við höfum verið að auka við fjármagn í þróunarsamvinnu. Það er mjög gott og þetta er mikil aukning á ekki lengri tíma. En við vitum líka að þróunarríkin — og Vesturlöndin áttu að einhverju leyti sinn þátt í því og auðvitað er Covid-19 stærsti þátttakandinn þegar kemur að því að við höfum tekið skref aftur á bak. Staða kvenna, staða ungra stúlkna þegar kemur að giftingu og aðgengi að skóla, aðgengi barna að skóla, hungur, fátæktarmörk og allt þetta eru skref aftur á bak sem við munum þurfa að vinna upp. Svo horfum við á stöðuna núna og hugsum: Hvað mun gerast næstu vikur, mánuði og misseri þegar við sjáum ekki bara möguleika á raunverulegum bresti þegar kemur að matvælaframleiðslu heldur líka mikilli kostnaðarhækkun sem þessi ríki ráða einfaldlega ekki við? Hvaða afleiðingar mun það hafa á þau svæði og hvaða hlutverki höfum við þar að gegna? Það er því ekki bara að við þurfum að ná til baka því bakslagi sem við urðum fyrir í Covid-19 heldur er ég hrædd um að það sé að hlaðast ofan á þau vandamál og áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir og þróunarríkin sérstaklega. Almennt er það þannig að þau ráða síður við óstöðugleikann en við. Þess vegna ítreka ég aftur að við þurfum að vera þjóð meðal þjóða og við þurfum að sýna líka hvernig hægt er að gera hlutina. Við eigum (Forseti hringir.) svo mörg góð dæmi þar sem við sýnum að hægt er að gera hlutina með öðrum hætti en hefur verið gert eða margir aðrir gera og við eigum að byggja á því, byggja á okkar sérstöðu.