152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga þennan þátt fram hér og ekki veitir af. Afstaða Íslands í afvopnunarmálum er skýr og byggir á ákvæðum þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem segir skýrt að Ísland beiti sér fyrir afvopnun á alþjóðavettvangi. Því miður er það í þessu máli eins og ýmsum öðrum að við erum ekki beint á réttri braut heldur virðumst við vera að aka ofan í skurð og að hlusta á forystumenn í ríkjum ekki langt frá okkur tala eins og þeir hafa talað undanfarnar vikur er einhvern veginn algerlega ótrúlegt að sé málflutningur á árinu 2022. Það er afstaða ríkisstjórnarinnar. Á þeim grunni er unnið, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, ÖSE og Atlantshafsbandalagsins og sömuleiðis innan þeirra samninga sem Ísland er aðili að, líkt og NPT-samningurinn um bann við útbreiðslu kjarnavopna. Ég heiti því að vinna ötullega að því að við bæði tölum skýrt og styðjum góðar tillögur og góð málefni og séum ekki fyrir og það þurfi ekkert að efast um það hvar við stöndum. Ríkjandi aðstæður vegna innrásar Rússlands í Úkraínu hafa nú þegar sett framkvæmd afvopnunarsamninga í uppnám og sérstaklega þá sem snúa að gereyðingarvopnum. Kjarnavopn og jafnvel eiturefnavopn og efnavopn eru hluti af hernaðarógn Rússlands. Á meðan þessar aðstæður ríkja verður á brattann að sækja með efnislegar viðræður um afvopnun. Þetta er vítahringurinn sem menn koma sér í þegar teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir eins og yfirvöld í Rússlandi gerðu í lok febrúar. Vítahringurinn er að það er erfiðara að ná árangri í samningum þegar staðan er þannig að verið er að hóta því eða munda sig til að beita þeim. Þá eigum við lengra í land (Forseti hringir.) og meðan við eigum lengra í land þá eru meiri líkur á ófriði og minni líkur á friði. (Forseti hringir.) En við tölum skýrt og ég mun gera það sem ég get til að þessi mál færist í rétt horf.