152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:36]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir kynninguna áðan. Þegar ég leit yfir fjármálaáætlun fór ég að velta fyrir mér þeim tengslum sem koma fram milli byggðamála og háskóla. Það eru töluverð tækifæri sem felast í því að styrkja háskólastarf utan höfuðborgarsvæðisins. Það er hægt að gera það á marga vegu. Í fjármálaáætlun segir, með leyfi forseta:

„Menntun og nýsköpun verði gert hátt undir höfði í öllum landshlutum m.a. með eflingu stoðkerfisins og þar með starfsemi þekkingarsetra vítt um land. Örugg fjarskipti gegna þar lykilhlutverki.“

Ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir þetta. Það er hægt að styrkja starfsemi háskólanna og auka sérfræðiþekkingu í öllum landshlutum á fjölbreyttan hátt. Það er einnig talað um styrkingu fjarnáms og dreifnáms í fjármálaáætluninni. Ég vil heyra nánar hver sýn ráðherrans er á samstarf háskólanna á landsbyggðinni og hvernig hægt er að vinna meira með það, af því að við búum svo vel að hafa frábærar háskólastofnanir úti á landi, um allt land, og tækifærin til samstarfs eru því mjög mörg. Það er það sem ég myndi vilja fá að heyra nánar um, sem sagt hvernig hægt er að styrkja samstarfið á milli skólanna.

Í fjármálaáætlun kemur einnig fram að tryggja eigi fjárveitingar til stuðnings við greinina sem gera Ísland að sjálfbærri þjóð. Þar eru nefndar greinar eins og tæknigreinar, matvælaframleiðsla og sjálfbærni, þannig að ég myndi líka vilja heyra hver sýn ráðherrans er á það. Er ætlunin að auka enn frekar samstarf atvinnulífs og háskólanna?