152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fjármálaáætlun er stefnumarkandi áætlun um hvernig ráðuneytin hyggjast verja fjárheimildum málefnasviða. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á málefnasviðum dómstóla, almanna- og réttaröryggis og réttindum einstaklinga. Samandregið eru þær áherslur sem birtast í fjármálaáætlun og heyra undir dómsmálaráðuneytið þess eðlis að horft er til þriggja meginmarkmiða: Í fyrsta lagi að bæta þjónustu við almenning í landinu og auka aðgengi íbúa landsins að þeirri þjónustu óháð búsetu. Þær breytingar sem eru að verða í stafrænum lausnum og rafrænni þjónustu munu skipa miklu máli við að stytta biðtíma og hraða allri málsmeðferð, hvort sem um er að ræða leyfisumsókn hjá sýslumanni eða rekstur dómsmála. Í öðru lagi að auka skilvirkni og samræma málsmeðferð innan embætta. Tækifæri eru að skapast innan embætta til að mynda sýslumanna, dómstóla eða lögreglu til að auka sveigjanleika í úrvinnslu mála óháð staðsetningu og tryggja betur nýtingu á fjármunum skattgreiðenda. Í þriðja lagi að horfa af mikilli alvöru til þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og sjá má í stefnumótun um byggðaáætlun 2022–2036, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, um að efla opinbera þjónustu um land allt með verkefnaflutningi og styrkja þannig þjónustueiningar eins og frekast er kostur.

Ástæða er til að reifa frekar efnisatriði hvers málefnasviðs fyrir sig til að skýra betur hvaða breytingar eru að eiga sér stað í samræmi við það sem ég legg áherslu á. Heildargjöld málefnasviðsins dómstólar haldast óbreytt út áætlunartímabilið. Þar eru engu að síður uppi metnaðarfull áform um stafrænar umbreytingar sem dómstólarnir þurfa að fjármagna innan útgjaldaramma málefnasviðsins. Í nýútgefinni skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjölda, stærð og stærðarhagkvæmni stofnana ríkisins er vikið að skipulagi héraðsdómstóla landsins sem eru átta talsins og að þrátt fyrir að þeir séu reknir á sama fjárlagalið eru þeir hver um sig sjálfstæðir. Við fámennasta dómstólinn starfar einungis einn starfsmaður auk dómara. Það eru áform um að skoða þetta gaumgæfilega, möguleika á sameiningu héraðsdómstólanna í einn dómstól, og jafna þannig álagið, skapa jafnari tækifæri til starfa óháð ólíkum þörfum og aðstæðum fólks og nálgast betur jafnræði notenda.

Í samræmi við áherslur stjórnarsáttmála er á tímabili fyrirliggjandi fjármálaáætlunar lögð áhersla á að efla löggæslu þannig að mönnun hennar fylgi þörfum samfélagsins. Það verði m.a. gert með tímabundnu átaki til fjölgunar nemenda í lögreglunámi á háskólastigi sem og með auknum framlögum til að mæta aðgerðum gegn kynferðisbrotum og skipulagðri brotastarfsemi.

Þá vil ég geta þess hér að fyrir liggur að um mitt árið 2022 þarf að taka afstöðu til þess hvort áfram eigi að leigja þyrlur Landhelgisgæslunnar eða fara aðrar leiðir, svo sem að bjóða út flugreksturinn eða kaupa notaðar vélar.

Breytingar á rekstrarframlögum málefnasviðsins almanna- og réttaröryggi skiptast í þrennt og tengjast allar áherslum sem fram koma í stjórnarsáttmála. Í fyrsta lagi eru tímabundin framlög til að fjölga í lögreglunámi, í öðru lagi vegna aðgerða gegn kynferðisbrotum og í þriðja lagi vegna aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þær viðbætur sem birtast okkur í fjármálaáætlun eru til viðbótar miklum framlögum sem komu inn á þessu fjárlagaári. Lækkun rekstrarframlaga milli ára skýrist aðallega af 1% hagræðingarkröfu og þá uppfærast fjárfestingarframlög vegna framkvæmda við samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila og Litla-Hraun í samræmi við áætlanir þar um.

Útgjaldarammi málefnasviðsins réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis er nokkuð óbreyttur. Gert er ráð fyrir auknum framlögum til Schengen-aðgerða og til Persónuverndar. Þá er gert ráð fyrir að 180 millj. kr. verði varið til stafrænna umbreytinga hjá sýslumanni árin 2023 og 2024. Með niðurfellingu lögsagnarumdæma, með mögulegri breytingu á starfsstöðvum sýslumanna, og aukinni áherslu á stafræna þjónustu standa vonir til þess að hægt verði að byggja upp mismunandi sérhæfingu á hverjum stað sem þjónar öllu landinu og getur tekið við auknum verkefnum hins opinbera. Hver starfsstöð á áfram að vera öflugur vinnustaður í héraði, þjónusta við borgarana verður betri, reksturinn hagkvæmari og stjórnsýslan skilvirkari. Þannig erum við, virðulegur forseti, að horfa til þessara breytinga sem vinna stendur núna yfir við hjá öllum meginembættum ráðuneytisins sem tengjast þessari auknu innleiðingu stafrænnar tækni og rafrænnar þjónustu. Þar verður gjörbylting í umhverfi ráðuneytisins. Ráðuneytið hefur verið í fararbroddi annarra ráðuneyta við þessa innleiðingu og við erum að leggja aukna áherslu á það og boðum til breytinga á hinum mismunandi embættum í samræmi við það.