152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki óeðlilegt að hv. alþingismenn hafi áhyggjur af þessu. Ég hef það líka. Þetta eru reyndar ekki 1.000 manns frá Úkraínu eingöngu sem eru komnir hingað, ef mínar upplýsingar eru réttar eru það eitthvað vel í áttina að 700 manns og þá rúmlega 300 sem eru af öðrum þjóðernum. Það er alveg rétt að búið er að opna þessa aðstöðu í Domus Medica. Það er einmitt gert til þess að bæta þjónustu við það fólk sem hér heyrir undir. Það er markmiðið með þessu að hafa einn stað þar sem það getur sótt alla sína þjónustu til að þetta verði skilvirkara kerfi.

Vinna við fjármálaáætlun tekur langan tíma, hún er náttúrlega til meðhöndlunar núna í þinginu og þingið getur gert á henni breytingar ef þörf krefur. En ég vil bara minna á að í fjármálaáætlun, alveg eins og í fjárlögum, er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin hafi ákveðinn varasjóð sem nemur milljörðum króna til að bregðast við aðstæðum eins og þessum. Það eru einmitt þær aðstæður sem við erum að upplifa núna í útlendingamálum, sem voru að þó nokkru leyti ófyrirséðar og eru kannski enn háðar mikilli óvissu og erfitt að áætla nokkuð um hvað þetta mun á endanum kosta. Allar vonir okkar standa til þess að stríðinu ljúki sem fyrst. Vonandi næst einhver árangur í því. Það mun hafa miklar breytingar í för með sér. Ef það fer eins og sumir spá, að það dragist á langinn, þá verður vandinn enn meira viðvarandi og til lengri tíma og kannski alvarlegri. Þá höfum við þennan varasjóð m.a. til að grípa til en hann er einmitt ætlaður til að nota við slíkar aðstæður.