152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni alveg sérstaklega fyrir þessa spurningu vegna þess að það er mjög mikilvægt að fá að gera grein fyrir þessu máli hér þar sem mikils misskilnings hefur gætt í umræðu og gagnrýni á þau áform sem unnið er að. Það á líka við um ályktun bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum og kannski alveg sérstaklega þar sem ég hafði nú bent bæjarstjóranum á það fyrir þann bæjarstjórnarfund sem haldinn var um málið að lesa þótt ekki væri annað en fréttina á heimasíðu ráðuneytisins, sem ég hvet hv. þingmann til að gera einnig, þar sem fram kemur auðvitað skýring á þeirri vegferð sem við erum á. Það eru að verða gríðarlegar breytingar á öllu umhverfi í starfsemi sýslumannsembættanna, eins og ég kom inn á með fleiri embætti sem heyra undir ráðuneytið. Það eru stafrænar lausnir, rafræn þjónusta er að taka yfir mjög mikið af verkefnum. Það verður að horfa til framtíðar þegar þessar aðstæður birtast okkur og við verðum að vera í bílstjórasætinu í að innleiða þessar breytingar en ekki láta þær keyra inn í hliðina á okkur og bregðast við eftir að það hefur gerst. Þetta mun gerast. Þetta mun breyta starfsumhverfi starfsfólksins og það þarf að tileinka sér ný vinnubrögð, það þarf að tileinka sér nýja tækni og það þarf að þjálfa það upp í að takast á við verkefnin á nýjum vettvangi.

Það stendur ekki til að loka einni einustu starfsstöð sýslumanna úti um land. Það stendur til að fjölga störfum hjá sýslumannsembættunum, sérstaklega úti um land. Við erum alveg sérstaklega, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, að horfa til þess — og það er eitt af grundvallarmarkmiðum og undirliggjandi markmiðum í allri okkar vinnu þegar kemur að lögreglu og dómstólum og sýslumönnum — að efna þau fyrirheit sem hafa verið um að fjölga störfum þannig að annað stendur ekki til. Þetta er fólki kunnugt. Ég tel að hér sé verið að reyna að slá pólitískar keilur sem er engin innstæða fyrir. Það er slæmt vegna þess að það setur ótta í starfsfólk sem er algjörlega óþarfur. Ég hef núna á undanförnum dögum og vikum (Forseti hringir.) farið á milli sýslumannsembætta og kynnt þessar breytingar. Það er unnið að þessu í nánu samstarfi við yfirmenn hjá sýslumannsembættunum og við munum halda því áfram.