152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek glaður þátt í umræðum um útlendingamál eða aðra málaflokka sem heyra undir ráðuneytið almennt séð þrátt fyrir að við séum hér að ræða ríkisfjármálaáætlun fyrir næstu fimm árin. Mér fannst spurningar hv. þingmanns ekki vera í neinu samræmi við það en ég skal gera mitt besta til að svara henni. Já, þessi mál eru oft sár og erfið í allri meðferð og meðhöndlun og ljóst að ástæða væri til að geta gert í mörgum tilfellum miklu betur. Við erum auðvitað að reyna að miða okkar vinnubrögð við það sem gengur og gerist hjá nágrannaríkjum okkar, eins og ég hef áður komið inn á, og lagabreytingarnar sem fyrir liggja núna tillögur um, í því frumvarpi sem ég hef lagt fram, snúa einmitt að því að skýra dálítið leikreglurnar og að fólk sem er í þessari erfiðu stöðu og hingað leitar viti á hvaða forsendum við vinnum og nálgumst þessi mál. Það er þá samræmi í því við það sem gerist í öðrum löndum. Við veitum fólki í þessari stöðu lögfræðilega talsmenn, þ.e. lögfræðimenntaða talsmenn, og við veitum því félagslega þjónustu. Málsmeðferðin er þannig að á stjórnsýslustigi fjallar Útlendingastofnun um þessa umsókn og fer yfir það hvernig um hana er búið og hverjar aðstæður eru og hvort fólk eigi rétt á samkvæmt lögum að fá dvöl á Íslandi. Síðan er hægt að skjóta þessu til úrskurðarnefndar útlendingamála og það er á grundvelli þess sem fólki er þá synjað, eftir þessa víðtæku málsmeðferð (Forseti hringir.) þar sem það hefur lögmann sér við hlið. Nú höfum við verið í þeirri erfiðu stöðu að þetta fólk (Forseti hringir.) sem er hér í ólögmætri dvöl fer ekki af landi brott eins og því ber að gera.