152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið sem ég skil á þann veg að þessu sé alls ekkert ætlað að auka skilvirkni heldur séum við einfaldlega að apa eftir öðrum ríkjum, sem ég svo sem gat mér til um og hef heyrt áður og margir hafa skilning á. Með lögunum árið 2016 var hins vegar gerð önnur réttarbót, til viðbótar því sem ég nefndi hér áðan, sem var sú að gera stjórnvöldum skylt að taka umsókn til skoðunar hér á landi þó að fólk hafi fengið stöðu flóttamanns í öðru ríki, dragist málsmeðferðin umfram 12 mánuði. Þess má geta að þetta er ekki í Evrópulögum eða í lögum annarra ríkja heilt á litið þannig að þetta er séríslensk regla. Þetta var vegna þess að það var ekki talið eðlilegt að fólk dveldi hér mánuðum og jafnvel árum saman, starandi á hvíta veggi, skrimtandi á vikulegum vasapeningum frá Útlendingastofnun, án þess að umsókn þess væri einu sinni tekin til skoðunar.

Fleiri breytingar en sú sem ég nefndi áðan eru boðaðar með frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra, svo sem misundarlega útfærðar tilraunir til að taka með öllu úr sambandi þá skyldu stjórnvalda að taka mál til skoðunar hafi málsmeðferðin dregist fram úr öllu hófi. Má ég til með að lesa upp úr frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra hvað þetta varðar, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.“ — sem sagt um þennan 12 mánaða frest — „skal taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram, enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.“

Í skýringum með lagafrumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Gildandi lagaákvæði“ — sem á að vera réttarbót fyrir m.a. börn á flótta — „getur því leitt til þess að fjölskyldur með börn á framfæri eða fólk í hjúskap eða sambúð geti þvingað fram (Forseti hringir.) efnislega málsmeðferð“ — sem sagt áheyrn — „einfaldlega með því að tefja mál sitt viljandi.“

Þannig að foreldrar sem eru taldir (Forseti hringir.) tefja mál sitt geta, eins og það er orðað í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra, (Forseti hringir.) þvingað fram áheyrn íslenskra stjórnvalda og börn (Forseti hringir.) sem hafa verið hérna í tvo mánuði, (Forseti hringir.) 24, 36, hver veit hvað lengi, (Forseti hringir.) fá því ekki að vera.

Spurningin mín (Forseti hringir.) til hæstv. dómsmálaráðherra er: Hvernig á þetta (Forseti hringir.) að auka skilvirkni í málaflokknum?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á ræðutíma og minnir einnig hv. þingmenn á að hér er til umræðu fjármálaáætlun.)