152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég verð að hryggja hæstv. ráðherra með því að segja að þessi 500 millj. kr. lækkun er undir liðnum fjölskyldumál sem heyrir m.a. undir hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra en ekki dómsmálaráðherra. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það gleður mig að heyra að það sé komin á tenging við þessi sjálfboðaliða. Ég tel það gríðarlega mikilvægt fyrir flóttafólkið sjálft og líka fyrir þessa sjálfboðaliða sem að öðrum kosti myndu brenna út við að sinna störfum sem ríkið á sannarlega að bera ábyrgð á.

Mig langar að víkja að öðrum þætti í fjármálaáætluninni sem er á bls. 420. Þar kemur fram að lögð verði aukin áhersla á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Ég hjó í þetta þar sem ég tel ekki síður mikilvægt að huga að aðlögun einstaklinga sem hingað leita og eru hér og í raun bara allra af erlendum uppruna sem búa hér. Þetta hefur verið mér mikið hjartans mál í áraraðir og ég tel allt of lítið gert til að sinna þessu verkefni. Spurningin mín hvað þetta varðar og fyrirætlanir hæstv. ráðherra er fyrst og fremst þessi: Um hvað snýst aðlögun að mati ráðherra? Þá langar mig til að spyrja, þar sem ég sé þess ekki stað í þessari áætlun, hvort til standi að verja fjármunum í að tryggja fólki aðgengi að íslenskunámi. Á bls. 361 í þessu skjali kemur fram að efla þurfi gæði og framboð íslenskukennslu. Hvergi kemur fram svo ég fái séð, þó að ég játi það nú að ég hef ekki lesið allar 500 blaðsíðurnar spjaldanna á milli, þó þá þætti sem ég tel að þessar upplýsingar væri að finna, að það séu neinar fyrirætlanir um að tryggja aðgengi, t.d. með aukinni niðurgreiðslu og slíku á íslenskunámi. Það þarf að lyfta grettistaki í málum er varða aðlögun og tryggja möguleika fólks sem hingað leitar úr aðstæðum og menningu sem er gjörólík okkar, frá ríkjum þar sem stjórnvöld eru ógn við borgara sína en veita ekki vernd, þar sem fólk hefur lært að vantreysta lögreglu, menningu þar sem engin þjónusta fæst án þess að bera fé á opinbera sýslunarmenn, (Forseti hringir.) þar sem atvinna og húsnæði fæst fyrst og fremst í gegnum tengsl sem þetta fólk hefur ekki hér á landi. (Forseti hringir.) Eina leiðin til þess að átta sig á öllum þessum hlutum er að skapa tengsl við það fólk sem fyrir er. Lykillinn að því er tungumálið.