152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[19:51]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrri ræðuna. Það sem ég hjó eftir í ræðu hans eru þessar sláandi tölur yfir fólk sem myndi margt gjarnan vilja geta lifað sjálfstæðu lífi, búa á eigin vegum, en dvelur þess í stað á hjúkrunarheimilum þar sem, kaldhæðnislega nokk, síðan er akkúrat í 2. umr. talað um að það vanti pláss fyrir fólk sem myndi frekar kjósa það frekar en þær aðstæður sem það er í.

Það sem ég velti fyrir mér og langar að fá álit hv. þingmanns á varðar þennan kostnað. Nú er alltaf verið að tala um að hitt og þetta kosti of mikið og það er sannarlega segin saga að stjórnvöld ráðast í einhverjar breytingar og annað sem síðan verður ekki að raunveruleika vegna þess að það er ekki fjármagnað. En ég velti fyrir mér hvort það sé ekki augljóst í þessari stöðu að með því að færa fólki þá þjónustu sem það á rétt á — það er ekki eingöngu þannig að það þurfi að setja meiri pening í það, það sparast peningur á öðrum stöðum og verður í rauninni eðlilegri dreifing á þessu. Ég myndi gjarnan vilja fá álit þingmannsins á þessu. Og svo er annað, sem var nú kannski frekar í máli hæstv. ráðherra hér áðan, sem ég hjó eftir varðandi akkúrat kostnaðinn og fjármögnunina á þessum samningum sem búið er að ákveða að gera. Þar er talað um að skipa starfshópa og hæstv. ráðherra talar um að þau muni halda áfram að reyna að finna fé í þetta og allt annað slíkt. En er þetta svo flókið? Er þetta ekki bara svo einfalt að þá þjónustu ber að fjármagna sem stjórnvöldum ber að veita samkvæmt lögum? Er þetta eitthvað flóknara en það? Hvaða niðurstöðu er einhver starfshópur að fara að komast að annarri en þeirri að það þurfi einfaldlega að veita meira fjármagn í þetta samkvæmt fjárlögum?