152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[19:55]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hjó einmitt eftir orðum sem hv. þingmaður notaði, sem hæstv. ráðherra notaði líka áðan. Það eru orðin: halli í rekstri. Mér hefur alltaf þótt þetta áhugavert orðalag þegar kemur akkúrat, eins og hv. þingmaður segir, að þjónustu sem ríkinu ber að veita samkvæmt lögum. Þá veltir maður fyrir sér samanburði við aðra þjónustu sem ríkið veitir, svo sem bara skólaþjónustu og slíkt. Það er líka talað um þetta varðandi almenningssamgöngur, þá er alltaf verið að tala um tap á rekstri Strætó. Ég hugsaði með mér: Er tap á rekstri grunnskólanna? Er tap á rekstri sjúkrahúsanna? Er þetta rekstur sem við getum raunverulega verið að tala um eitthvert tap á? Ætlumst við til þess að þetta sé hagnaðardrifin starfsemi? Og það er það sem endurspeglast svo mikið í því hvað það er sem stjórnvöld eru raunverulega að fjármagna og hvað ekki, það er þar sem við sjáum hvar áherslan liggur raunverulega. Ég velti því fyrir mér: Ímyndum okkur barn sem hefur skólaskyldu. Það hefur skyldur samkvæmt lögum til að mæta í skóla og stjórnendur hafa þar með skyldu til að veita því pláss í skóla. Ef stjórnandinn segði bara: Nei, heyrðu það eru bara ekki fleiri pláss, það er fullt, bara sorrí — hvernig gæti það gengið? Það gengur náttúrlega ekki upp og það er ekkert svoleiðis, það er ekki gert. Hvers vegna er það? Hvers vegna leyfa stjórnvöld sér að gera það í þessum málaflokki? Hv. þingmaður nefnir hérna atvinnuleysisbætur sem eru annað gott dæmi. Það er ekki þannig að ef þú átt rétt á atvinnuleysisbótum sé bara sagt: Nei, heyrðu sorrí, það er ekki til peningur. Er ekki fullkomin þversögn í þessu?