152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[20:51]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég sá mig knúna til að koma hingað upp í örstutt andsvör við hv. þingmann. Ég hjó eftir því að hann fagnaði því hversu mikið samráð hefði verið haft við vinnslu frumvarpsins. Það var efni ræðu minnar hér áðan, sem ég flutti því miður fyrir tómum sal, þar til hæstv. ráðherra kom og heiðraði mig með nærveru sinni, að við vinnslu frumvarpsins — það var unnið í hópi, ég var með upptalninguna hér áðan, ég tók hana ekki með mér upp í pontu — var ekki haft samráð við NPA-miðstöðina sem er það batterí sem hefur mesta þekkingu og mesta reynslu af þessu kerfi og bestu innsýnina, myndi ég halda, í hagsmuni og upplifun notenda og þeirra sem sinna þessari þjónustu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem hefur talsvert mikla þekkingu á þessum málaflokki, hvort hann telji ekki að ástæða hefði verið til að hafa samráð við NPA-miðstöðina við vinnslu þessa máls.