152. löggjafarþing — 65. fundur,  8. apr. 2022.

veiting ríkisborgararéttar.

628. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um veitingu ríkisborgararéttar. Allsherjar- og menntamálanefnd bárust 136 umsóknir um ríkisborgararétt á vetrarþingi 152. löggjafarþings. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum. Nefndin leggur hér til að 19 umsækjendum verði veittur ríkisborgararéttur að þessu sinni og liggja nöfn þeirra fyrir á umræddu þingskjali.

Mig langar að nota tækifærið og óska þessum 19 einstaklingum innilega til hamingju. Ég ætla líka að fá að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni, Jódísi Skúladóttur og Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir vel unnin störf, en þessir þrír þingmenn voru í undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar og fóru yfir þessar umsóknir. Mér finnst líka nauðsynlegt að hér komi fram að þetta er sá listi sem hefðinni samkvæmt er afgreiddur fyrir jól. Það eru því fleiri umsóknir sem liggja inni og er það vilji okkar í allsherjar- og menntamálanefnd að afgreiða líka þann bunka áður en við ljúkum störfum hér fyrir sumarið.