152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Því miður eru allir þingmenn meiri hlutans horfnir héðan úr þessum sal. Það var gleðiefni að sjá þau koma upp hérna áðan en það hefur ekki komið svar við spurningunni sem ég spurði. Þau eru búin að útskýra ítrekað og í löngu máli hvers vegna þau vilja að ríkisendurskoðandi skoði málið. Það er ekki búið að svara spurningunni um það hvers vegna þau vilja ekki rannsóknarnefnd. Nú erum við búin að færa ítarleg rök fyrir því hvers vegna við teljum rannsókn ríkisendurskoðanda ekki duga til. Það er vegna takmarkaðra heimilda sem hann hefur. Það er ekki þannig að þingið geti bara stokkið til og veitt ríkisendurskoðanda hinar og þessar heimildir, fyrir utan það að hvers vegna ættum við að gera það þegar það er til úrræði í lögum um rannsóknarnefndir? Ég biðla til minna hv. samstarfsmanna í meiri hlutanum: Getið þið útskýrt fyrir mér hvers vegna það kemur ekki til greina að setja á fót rannsóknarnefnd sem getur raunverulega, líkt og hv. þm. Orri Páll Jóhannsson (Forseti hringir.) sagði áðan, velt við hverjum steini og skoðað málið algerlega ofan í kjölinn? Hvers vegna ekki?