Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:50]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir talaði um áðan að við gætum komist lengra áfram í efnislegri umræðu um þetta mál ef við færum af stað í þá umræðu sem er næst á dagskrá á þessum fundi. Mig langar til að spyrja: Hvernig getum við komist áfram í efnislegri umræðu um þetta mál þegar hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar halda áfram að þvæla málinu fram og til baka með stuðningi hv. þingmanna meiri hlutans? Hæstv. fjármálaráðherra hefur komið fram í fjölmiðlum, snúið út úr þeim fullyrðingum að fólk hafi keypt og selt daginn eftir með því að segja: Nei, það var ekki daginn eftir. Af því að það var kannski nokkrum dögum síðar. Þetta kallast útúrsnúningur á góðri íslensku. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt: Má pabbi minn ekki kaupa? Það er enginn að segja pabbi hans megi ekki kaupa. Þetta er það sem kallað er á góðri íslensku útúrsnúningur. Hæstv. fjármálaráðherra kemur hérna upp áðan og er með strámann um einhverja ákæru fyrir landsdómi og við eigum bara að fara af stað með það. Svona er málflutningur ríkisstjórnarinnar. Hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra kemur fram og segist hafa lýst yfir óánægju. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra kemur og segir að það hafi ekki verið bókað um neina óánægju. Hæstv. fjármálaráðherra kom síðan upp áðan og staðfesti það (Forseti hringir.) sem ég hef haldið fram lengi og grunað sem er það að hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar finnst ríkisstjórninni ekkert koma við hvað einstakir ráðherrar gera. Það er ekkert annað í stöðunni í þessu máli (Forseti hringir.) en að skipa rannsóknarnefnd (Forseti hringir.) til að komast til botns í öllum þáttum þessa máls.