Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:20]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Virðulegur forseti. Það hefur nokkuð verið rætt um form og hefðir hér í dag og vissulega er það mjög mikilvægt í störfum þings og ríkisstjórnar að virða form og hefðir. En mig langaði að nefna það í upphafi ræðu minnar að eitt lítið blað er brotið í formum og hefðum í dag þegar þingmaður úr stjórnarandstöðuflokki tekur sæti stjórnarþingmanns. Sú atburðarás hefur leitt undirritaða í ræðustól þingsins í dag og ég vil þakka öllum sem hafa átt hlut að máli.

Haldið ró ykkar meðan ránið stendur yfir. Þannig mæltist verðlaunaskáldinu Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur að morgni miðvikudagsins 13. apríl. Á þeim tíma þótti mér að staðan í Íslandsbankasölumálinu yrði vart römmuð betur inn og fyrir mér hefur fátt nýtt komið fram síðan sem gefur tilefni til að tóna þessi orð skáldsins neitt niður. Eign okkar almennings var boðin til sölu eftir einhverjum kúnstarinnar reglum. Aðallega, og auðvitað fyrst og fremst, áttu að gilda um söluna lög um sölumeðferð á eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum eins og oftsinnis hefur verið vikið að hér í dag. Þar er sérstaklega tiltekið að áhersla skuli lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Þetta er allt búið að margtyggja í dag. Það er reyndar ekki tiltekið sérstaklega að brask sé bannað, ef ég man rétt, en hins vegar er ljóst að einhverjir sem keyptu bréf í bankanum hafa þegar selt og seldu jafnvel mjög fljótt og innleystu söluhagnað. Það að búast ekki við þessari útkomu í því ferli sem þarna var sett af stað lýsir fyrir mér lítilli þekkingu á hlutabréfamarkaði því að þetta eru bara fjárfestingar eins og önnur verðbréf og þarna eru þeir sem leggja til fé að ávaxta sitt pund. Skráning í kauphöllum er til að greiða fyrir viðskiptum. Það voru engir fyrirvarar eða neinar kröfur um að eiga þessi bréf þannig að það ætti varla neitt að þurfa að ræða það.

Síðast í dag fer Páll Magnússon ágætlega yfir þetta í grein á vísi.is og telur þar upp nokkrar aðferðir til að taka á þessu léttan snúning til að græða nokkuð vel. Bréfin voru keypt á genginu rúmlega 117, ef ég fer rétt með, og voru í 127 daginn eftir. Það er alveg ágætisklink í vasa. En að mínu mati, og ég er svo heppin að ég er hvorki í efnahags- og viðskiptanefnd né fjárlaganefnd þannig að ég hlýt að mega tala þannig núna, er það engin afsökun fyrir þá sem bera ábyrgð á þessu og benda á að hinir og þessir þingmenn eða jafnvel ráðherrar hafi hvergi bókað andstöðu sína á fyrri stigum. Í þessu tilviki er það almenningi, sem treystir stjórnvöldum fyrir meðferð á sameign þjóðarinnar, þjóðareigninni, eignarhlutnum í Íslandsbanka, sem er misboðið og það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum í þessu landi.

Forstjóri Bankasýslunnar sagði að það þyrfti að treysta bönkum og verðbréfafyrirtækjum að sjá um útboð á hlutabréfum fyrir íslenska ríkið. Hann sagði þetta 14. apríl. Jú, en í lögunum segir að þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skuli áhersla lögð á þetta o.s.frv. og þá skuli gæta þess að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skuli við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði, eins og fyrri ræðumaður fór ágætlega yfir. Í 4. gr. sömu laga segir síðan að Bankasýsla ríkisins sjái um þessa sölu. Það er skýrt að ábyrgðin á framkvæmdinni er Bankasýslunnar. Henni verður ekki vísað út í bæ, hvorki á regluvörslu Íslandsbanka, hvað þá á kaffivélina þar. Sami forstjóri sagði að hlutabréfakaup starfsmanna ráðgjafarfyrirtækja fælu í sér hagsmunaárekstur og vonbrigði. Þetta var náttúrlega furðulegt að heyra svona fáum dögum eftir að þetta ferli fór fram og gaf þá til kynna að Bankasýslan kynni að setja fram kröfur í samræmi við góða stjórnsýslu og viðskiptahætti.

Það er ljóst að Seðlabankinn hefur nú til skoðunar skilgreiningu á hugtakinu fagfjárfestum. En átti það ekki einmitt að vera hlutverk Bankasýslunnar að hafa það á hreinu hverjir þessi fagfjárfestar væru og mögulega setja eigin viðmið innan ramma laganna um það til að tryggja önnur markmið í ferlinu? Það hvort síðan þurfi að skoða hvort reglur um innherjaviðskipti hafi verið brotnar er auðvitað sérstaklega alvarlegt út af fyrir sig.

Ein af eftirtektarverðum útskýringum á því hversu frábært þetta hafi allt verið er sú að það hafi engin veruleg hindrun verið fyrir alla að taka þátt í útboðinu. En það hefur þó verið staðfest að sérstaklega var haft samband við suma og á þessu er stór munur. Bankasýslan er hluti af umboðskeðju stjórnsýslunnar. Hún er reyndar oft margslungin og þannig getur stefna á tilteknu málefnasviði átt rætur í mörgum stefnuskjölum. Það er hins vegar grundvallaratriði að hver hlekkur í keðjunni sé sterkur og allir fulltrúar í henni ræki skyldur sínar. Hérna virðist hins vegar augljóslega vera eitthvað sem ekki gengur upp. En fólki blöskrar ekki bara brask, því blöskrar líka það sem einhver gæti kallað allt að því fúsk, alla vega ekki nógu góð vinnubrögð. Við erum búin að heyra marga tala um það hér í dag að þetta hafi ekki allt gengið eftir eins og til var stofnað. Þá fór ég og skoðaði tilkynningu Bankasýslu ríkisins frá 22. apríl þar sem talað er um að hún hafi sett af stað söluferli með tilboðsfyrirkomulagi sem á ensku er kallað, með leyfi forseta, „accelerated bookbuilding process“. Ég hef nú þegar setið nefndarmannamegin á einum nefndarfundi og mér gæti t.d. dottið í hug að þingmenn í nefndunum hefðu gúglað þetta hugtak og komist að því að þetta hugtak er fyrst og fremst notað um hlutafjáraukningu þar sem nýtt hlutafé er boðið til sölu á mjög stuttum tíma til valdra fagfjárfesta eða það sem á ensku heitir, með leyfi forseta, „institutional investors“. Ég held að þingmenn hafi bara verið í býsna góðri trú um hvað þarna átti að fara fram. Niðurstaða mín er þá frekar sú að þetta hafi mögulega afvegaleitt umræðuna á einhverju stigi, mögulega einhverja hv. þingmenn. Þetta gæti alla vega villt einhverjum sýn. En tilgangurinn með þessu fyrirkomulagi er einmitt sá að fá fjárfesta með mikla þekkingu á hlutabréfamarkaði sem geta greint virði hlutabréfa á stuttum tíma. 24–48 tímar er hámarkið á þeim tíma sem svona ferli er ætlað að taka, segir Google. Því er líka ætlað að deila markaðsáhættunni milli kaupenda og seljenda. Það liggur hins vegar fyrir í þessu tilfelli að tilboðum var hafnað sem voru hærri en selt var á. Þannig virkaði þessi niðurskurður, af því að tilboðin voru meiri, í fleiri hluti en voru seldir.

Bankasýsla ríkisins hefur núna haft nær þrjár vikur til að svara spurningum þingsins um söluna og hefur það margoft verið rætt hér í dag að hún óskaði eftir því að fresta því seint í gærkvöldi. Það er auðvitað mjög skrýtið. Hverju getur hún bætt við á einum sólarhring sem hún er búin að hafa þrjár vikur til að svara? Þetta er ekki boðlegt fyrir þingið og ekki boðlegt fyrir almenning sem á sitt undir því að þingið ræki eftirlitshlutverk sitt. Er kannski bara verið að skrifa söguna eitthvað eftir á? Þetta hlýtur allt að liggja fyrir í lýsingu á söluferlinu og samskiptum, bæði við þingið og þá ekki síður fjármálaráðuneytið og þá sem stjórna þar á bæ og svo í tilkynningum um söluna. Það getur varla þurft að bæta miklu við.

Varðandi opið söluferli þá kemur fram í athugasemdum við frumvarpið um framkvæmd sölumeðferðar á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum að gert er ráð fyrir því að bjóða skuli eignarhlut til sölu í opnu söluferli. Hins vegar er nauðsynlegt að rökstyðja sérstaklega ef ekki stendur til að bjóða hlut til sölu með þeim hætti. Áfram segir að slíkt fyrirkomulag kunni í undantekningartilvikum að koma til greina t.d. við sölu á minni eignarhlutum ríkisins eða ef einhverjar sérstakar aðstæður kalli á að þetta fyrirkomulag sé viðhaft. Ég tel að það hljóti að mega lesa þessar skýringar þannig að mjög ríkar kröfur séu gerðar til framkvæmdar sem fer fram í því fyrirkomulagi sem hér var ákveðið að hafa við. Ég veit ekki hvernig hægt er að halda því fram að söluferlið hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög en benda í hinu orðinu á að hinir og þessir ágallar kunni að hafa verið á ferlinu annars staðar en hjá Bankasýslunni. Þá á ég líka við á hinum endanum, hjá verðbréfamiðlurum og þeim sem komu að þessu þeim megin frá. Lögin gilda um framkvæmd sölunnar og það er sérstaklega tekið fram í skýringum við þau að Bankasýsla ríkisins hljóti, þá í umboði fjármálaráðherra, að bera ábyrgð á öllu söluferlinu. Með öðrum orðum: Brotakennd framkvæmd við sölu eignarhluta ríkisins í einni stærstu fjármálastofnun landsins og væntanlega einni af verðmætustu eign ríkisins er og verður á ábyrgð fjármálaráðherra og undirstofnana ráðuneytisins.

Það er fagnaðarefni að fá við söluna fjármagn í ríkissjóð til að draga úr lántökuþörf og vaxtagreiðslum, það er ekki það. En allir sem tala um þetta af nokkurri sanngirni hljóta að skilja að gagnrýnin felur það í sér að mögulega hefði verið hægt að fá meira fyrir þennan hlut. Ég get því tekið undir með séra Davíð Þór Jónssyni sem sagði á Austurvelli á föstudaginn langa: Mér finnst þetta ekki í lagi og ég held að engum finnist það í lagi. Það hafa 83% þjóðarinnar tekið undir, þ.e. einhver könnun sagði að 83% væru óánægð með útboðið.

Þetta útspark ríkisstjórnarinnar 19. apríl að fórna Bankasýslunni — það stóð ekki á viðbrögðum þaðan. Það dugði ekki ein fréttatilkynning, heldur þurfti tvær. En það sem mér fannst áhugavert að heyra var að Bankasýslan lýsti því strax yfir að hún myndi skoða lagalega stöðu sína áður en hún greiddi söluþóknanir. Þar fór skítur inn í viftuna, sagði fjósamaðurinn. Ætli þeir sem tóku verkefnið að sér kyngi því bara sisvona? Menn hafa nú sett mál í gegnum dómskerfið af minna tilefni. Þetta var svolítið glannaleg yfirlýsing að mínu mati, eða voru kannski engin lög brotin? Er nema von að venjulegt fólk upplifi sig statt í einhverju moldviðri, eins og maðurinn sagði? Eða af hverju ætti annars Bankasýslan að hóta því að borga ekki umsamdar söluþóknanir? Ég bara spyr því að ég veit ekki svarið, herra forseti.

Í öllu þessu máli er ljóst að það hefur eitthvað farið úrskeiðis og það ber að fagna því að stjórnarliðar taka undir að þetta hafi ekki allt farið eins og það átti að fara, sumir alla vega. Þjóðin og þingið eiga skilið að fá á þetta gagngera rýni. Það eru enn opin sár eftir afleiðingar bankahrunsins, eins og komið hefur við sögu í þinginu í dag. Ég tel því að það að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að fara yfir þetta séu rétt viðbrögð við ákalli um skýr svör um hvað gerðist í þessu ferli og ég hvet til þess að málinu verði beint í slíkan farveg.