152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:20]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og um leið stoðsendinguna. Ég ætlaði einmitt að koma inn atriðið sem hún nefndi í lokin í síðara innleggi mínu. Mig langar að rifja þetta upp með Bankasýsluna og lögin um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þetta eru tvenn lög, það eru þrjú ár á milli þeirra og þau hafa ekki sama hlutverkið. Bankasýslan fer með eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég veit þetta mjög vel því að ég var í stjórn eins af föllnu bönkunum, síðast sem stjórnarformaður, og á þeim tíma var Bankasýslan stofnuð. Það er alveg skýrt hvert hennar hlutverk er. Lögin um sölu á eignarhlutum byrja hins vegar á orðunum: „Ráðherra er heimilt að selja …“ Þetta eru tvenn lög. Fyrirgefið nýjabrumið, en mér finnst að það sé verið að rugla þessu saman í þessum sal, ég verð að viðurkenna það. Þá langar mig að ítreka og biðja hv. þingmann að koma aftur inn á það: Hvað sér þingmaðurinn fyrir sér að gerist? Getur Bankasýslan verið raunverulegur handhafi þessa eignarhlutar á næstu mánuðum? Ég veit ekki hvenær kjósa á í næstu stjórn, hún á að tilnefna stjórnarmenn og fara með þessa eignarhluti að öðru leyti. Er hún raunverulega í færum til þess eins og staðan er í dag? Og hvað þá?