152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Umboðsmaður Alþingis heimsótti lokaðar geðdeildir Landspítalans árið 2018 til að kanna aðstæður fólks sem þar var vistað. Þrátt fyrir hafa farið þangað til þess að kanna aðstæður þá var það sem sló umboðsmann fyrst og fremst að inni á deildunum átti sér stað nauðung og inngrip sem ekki áttu sér stoð í lögum. Er það orðað svo í skýrslu umboðsmanns, með leyfi forseta, að ekki væri til staðar fullnægjandi lagalegur grundvöllur fyrir inngripum sem stríða gegn sjálfsákvörðunarrétti sjúklinga.

Þetta eru uggvænlegar niðurstöður. Þetta þýðir að hér sé um mannréttindabrot að ræða. Réttur einstaklings til sjálfsákvörðunar eru stjórnarskrárvarin mannréttindi og þegar tekið er fram fyrir hendur sjúklinga án þess að fyrir hendi sé fullnægjandi lagaleg heimild er ósköp einfaldlega brotið á mannréttindum fólks. Þessi nauðung birtist á marga vegu. Sjúklingum er refsað með einangrun, þeir sæta eftirliti, þeir eru líkamlega þvingaðir eða neyddir til lyfjagjafar. Sjúklingar eru neyddir til að neyta matar, nauðungarsprautaðir til að hægt sé að bursta tennur þeirra eða þrífa þá, allt í nafni þess að grunnþörfum sé mætt. Maður hefði þó haldið, eins og segir í skilmerkilegri umsögn Geðhjálpar við lagafrumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra sem blessunarlega var dregið til baka hér fyrr á þinginu, að grunnþarfir sjúklings fælust fyrst og fremst í því að sæta ekki líkamlegu ofbeldi af hálfu þeirra sem eiga að huga að velferð þeirra. Inngrip sem þessi þjóna oft engum tilgangi öðrum en að auðvelda starfsfólki stofnunarinnar lífið en eru samt sem áður réttlætt með tilvísun til meðferðar eða öryggissjónarmiða. Í ofanálag kemur núna fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál á Íslandi að hvergi er haldin skrá yfir beitingu nauðungar, sem þýðir að ómögulegt er að hafa eftirlit með framferði starfsfólks í garð sjúklinga. Þótt sjúklingur sé frelsissviptur á grundvelli lögræðislaga eða dóms hefur starfsfólk geðheilbrigðisstofnana þar með ekki sjálfkrafa heimild til að virða mannréttindi sjúklings að vettugi. Staðan er ólíðandi. Tafarlausra breytinga er þörf. Okkur ber að standa vörð um mannréttindi, sér í lagi þeirra sem standa höllum fæti í stað þess að brjóta á þeim okkur hinum til hægðarauka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)