152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:20]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég nú fagna því að hér skuli hafa verið samþykkt tillaga um lengd þingfundar áðan. Ég tel það mikilvægt, ekki síst í ljósi þess hvernig þessi umræða fer af stað hér í þinginu núna, sem er kunnugleg staða á undanförnum vikum og alveg ljóst að við þurfum að nýta tímann vel. Ég hvet forseta til að hafa fundi eins lengi og þörf þykir til að koma þessum málum á dagskrá.

Hér er verið að karpa um eiginlega ekki neitt fyrir einhverjar sýningar, en það er ágætt að það kom fram hér hjá hv. þm. Gísla Rafn Ólafssyni áðan að ef það mál fer á dagskrá sem þau eru á móti hér, einhver í stjórnarandstöðunni, þá mun ekkert hreyfast. Um það snýst þetta. Þetta er nú öll virðingin fyrir lýðræðinu hjá þessum minnihlutaflokkum eða þeim þingmönnum minnihlutaflokkanna sem svona hugsa og tala. Hér hefur verið lögð fram tillaga um að þetta mál verði ekki tekið á dagskrá. Þetta er mál meiri hlutans. Meiri hluti þingmanna styður þetta mál og það er mikilvægt að það fari á dagskrá, virðulegur forseti, og ég hvet til þess að það verði sett fyrst á dagskrá á þingfundi á morgun.