152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:36]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina yfir þetta mál og nefndarálitið. Ég kem aðallega til að biðja framsögumann að fara nánar yfir áhrifagreininguna sem er fjallað um í mati á áhrifum frumvarpsins. Þar er tvennt sem ég staldra við. Það er annars vegar kostnaðurinn. Mér finnst 40,8 milljónir fyrir þrjú stöðugildi og ýmsan einskiptiskostnað eitthvað þröngar buxur fyrir svona verkefni. Ég velti fyrir mér hvort framsögumaður vill veita eitthvert álit á því, svo að ég noti nú gott mál.

Hins vegar varðandi vinnslu persónuupplýsinga þá verð ég að segja að það hringir ýmsum viðvörunarbjöllum. Mig langar aðeins að heyra meira ofan í nefndina með það, hvort hún sjái einhverja meiri meinbugi á því að þarna sé þessu vísað svolítið til Fjölmenningarsetursins sjálfs, ef ég skil málið rétt. Mér þætti gott að fá aðeins meira um hversu víðtækt er eðlilegt að veita heimildir í þessu. Það fer ofboðslega fyrir brjóstið á mér oft að maður getur ekki einu sinni pantað leikhúsmiða nema að gefa upp kennitölu. Mér finnst að við verðum að læra að hemja okkur í þessu.