152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:46]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, breytingar er varða móttöku einstaklinga með alþjóðlega vernd fyrst og fremst. Það er kannski það sem lýtur að mínu aðaláhugasviði og ég ætla fyrst og fremst að einbeita mér að hér.

Ég hóf afskipti af útlendingamálum árið 2009 þegar ég gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum á Íslandi við að veita lögfræðilega ráðgjöf til umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi, stundum einnig kallað hælisleitendur sem mér sjálfri hefur alltaf þótt mjög fallegt orð þó að sannarlega sé búið að útjaska því pínulítið í umræðunni. Allt frá árinu 2009 hefur verið rætt um að fólk sem hingað kemur á eigin vegum, ef svo má segja, og sækir um vernd og fær vernd hafi ekki haft aðgang að sömu þjónustu og sömu aðstöðu og stuðningi og þeir einstaklingar sem koma hingað í boði íslenskra stjórnvalda í gegnum Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem í daglegu tali eru kallaðir því leiðinlega nafni kvótaflóttamenn. Allt frá árinu 2009 hefur sú umræða verið í gangi að jafna þurfi stöðu þessara einstaklinga. Þá og þar til fyrir mjög stuttu síðan var staðan sú að einstaklingar sem komu hingað sjálfir, sóttu um og fengu vernd fengu dvalarskírteini afhent og var boðið að eiga gott líf. Ef heppnin var með þeim þá kannski uppgötvuðu þeir Leigulistann og ráfuðu inn á einhvern veitingastað og fundu vinnu en stuðningurinn var í sjálfu sér ekki upp á marga fiska. Þetta hefur að sjálfsögðu verið að þróast allan þennan tíma og hefur Rauði krossinn t.d. veitt mikinn stuðning og mikla aðstoð í mörg ár af hálfu sjálfboðaliða við að aðstoða fólk við að koma undir sig fótunum á Íslandi og finna sinn veg. Það er auðvitað gríðarlega mikil áskorun sem felst í því að koma inn í nýtt samfélag, hvað þá þegar þú kemur inn í samfélag þar sem þú þekkir engan, talar ekki tungumálið, veist í rauninni ekkert, lendir í rauninni bara hér.

Það var árið 2009, að mér skilst samkvæmt þeim bestu upplýsingum sem við höfðum hjá Rauða krossinum, sem í fyrsta skipti kom flóttafólk til Íslands fyrir tilstilli smyglara, sem var beint til Íslands. Fram að því hafði það verið gegnumgangandi að fólk var á leiðinni til Bandaríkjanna eða til Kanada og strandaði hér því að það var stoppað við ytri landamæri Schengen á Keflavíkurflugvelli á leiðinni úr landi. Það var stoppað þar og átti ekki annarra kosta völ en að sækja hér um vernd. Árið 2009 kom fyrsta málið þar sem við töldum okkur hafa skýrar upplýsingar um að fólk væri að koma hingað til lands. Það er í sjálfu sér mjög áhugavert. Þeir einstaklingar höfðu samt ekki hugmynd um í upphafi hvert í ósköpunum ferðinni var heitið. Þau þurftu að flýja Íran í miklum flýti og þurftu til þess aðstoð glæpamanna. Hvers vegna þurftu þau aðstoð glæpamanna? Þau þurftu aðstoð glæpamanna vegna þess að það er, eins og ég nefndi í andsvari mínu við ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hér áðan, engin lögleg leið fyrir fólk á flótta að koma til Íslands og sækja um vernd. Engin lögleg leið. Þessir einstaklingar fengu hér vernd. Þau sögðu sína sögu, voru svo heppin að lenda ekki í neti Dyflinnar-reglugerðarinnar og fengu áheyrn og fengu loks vernd. Þá fengu þau dvalarleyfi, bara: Gjörðu svo vel, hérna er strætóskýlið. Það gladdi mig mjög mikið mörgum árum síðar þegar ég mætti þeim fyrir tilviljun þar sem þau voru mætt til að túlka fyrir nýja skjólstæðinga mína, farin að tala reiprennandi íslensku, orðin íslenskir ríkisborgarar. Það yljar um hjartaræturnar.

Þetta er smáútúrdúr. Það sem ég er að vekja athygli á hér er að síðan eru liðin 13 ár og það er fyrst núna sem er að mótast einhvers konar kerfi sem styður flóttafólk á sama hátt, sama með hvaða hætti það ratar hingað til lands. Það er auðvitað eitthvað sem hefur verið kallað eftir allan þennan tíma. Það frumvarp sem við ræðum hér er sannarlega mikilvægur þáttur í því og ég styð frumvarpið og það er mikil framför. Þetta snýst kannski fyrst og fremst um að lögbinda hlutverk Fjölmenningarseturs í þessari þjónustu. Að því leyti til er þetta mjög jákvætt. Ég tel í raun fátt við frumvarpið að athuga. Það eina sem vekur upp áhyggjur hjá mér, hringir viðvörunarbjöllum, eru ákvæði frumvarpsins um afhendingu persónuupplýsinga og aðgang stjórnvalda að persónuupplýsingum sem önnur stjórnvöld búa yfir og aðrir aðilar á Íslandi. Þrátt fyrir að Persónuvernd sé búin að leggja blessun sína yfir þetta er ljóst að heimildirnar sem stjórnvöld hafa, þarna Fjölmenningarsetur, til að afla mikilla upplýsinga eru gríðarlega víðtækar og ég fæ ekki betur séð en að Fjölmenningarsetri sé eingöngu skylt að upplýsa fólk um að til standi að afla gjarnan gríðarlega viðkvæmra persónuupplýsinga um það en ekki að fá samþykki. Ég myndi alltaf telja vænlegra að fólk þyrfti að samþykkja slíkt. Ég er ekki viss um að fólk geri sér alltaf grein fyrir því hvað er verið að segja því, sérstaklega þegar það eru miklar upplýsingar. Það getur verið erfitt að meðtaka miklar upplýsingar í því ástandi sem fólk er gjarnan þegar því loksins er veitt vernd.

Það kemur nefnilega mörgum á óvart að það að hafa verið á flótta í mörg ár, búa við gríðarlega hættulegar aðstæður, vera í því sem má kalla á ensku, afsakaðu, forseti, „survival mode“, þá er það að fá svar, einhvers konar niðurstöðu sem líklega þýðir endalok þinna þjáninga að stóru leyti, það er áfall. Það er áfall í öllum skilningi þess orðs. Það eru gríðarlega mikil viðbrigði. Það vekur tilfinningaviðbrögð hjá fólki, gerir fólki oft erfitt að hugsa skýra hugsun í kjölfarið. Þrátt fyrir það er framkvæmdin þannig að fólki er tilkynnt um þetta og oft búast kannski fulltrúar Útlendingastofnunar sem tilkynna ákvörðunina við miklum fagnaðarlátum og annað en það er mjög algengt að sjá engin viðbrögð. Það er mjög algengt að fólk sé einfaldlega frosið. Það segir ókei, ég skil. Svo kemur upplýsingarunan, svo kemur upplýsingaflæðið varðandi næstu skref. Þú færð hérna fullt af einhverjum pappírum og blöðum. Þú þarft að fylla þetta út. Lögfræðingurinn hjálpar þér með þetta. Fólk veit ekkert hvað er að gerast. Það meðtekur hluta, það meðtekur ekki annan hluta og það er bara fullkomlega eðlilegt. Að upplýsa fólk í þessari stöðu um það að Fjölmenningarsetur geti aflað allra viðkvæmustu persónuupplýsinga um þig frá hverjum sem þeim dettur í hug á Íslandi — það er nú kannski ekki alveg svo víðtækt en svo gott sem — ég er ekki viss um að það skili sér með öllu og vona að í framkvæmd verði tryggt að fólk geri sér grein fyrir því hvað þar er að eiga sér stað. Það er ekki að sjá að fólk hafi svo sem neina kosti á að mótmæla þeirri upplýsingaöflun og sannarlega er þessi upplýsingadeiling stjórnvalda í langflestum tilvikum mjög mikilvæg og nauðsynleg og af hinu góða. Þetta er hins vegar það sem kannski hringir viðvörunarbjöllum við lestur þessa frumvarps. Ég hefði gjarnan viljað sjá að gerð væri krafa um samþykki. En með blessun Persónuverndar sé ég ekki endilega tilefni til þess að gera tillögu að breytingu hvað þetta varðar.

Það sem vantar líka, það sem að mínu mati okkur hefur ekki enn tekist að taka nógu alvarlega til þess að setja um það skýra stefnu og skýr lög og skýra ferla, er varðandi aðlögun fólks að samfélaginu. Þarna er sannarlega stigið mikilvægt skref og ég trúi því að Fjölmenningarsetur eigi eftir að gera góða hluti með því að sinna þessu hlutverki sínu en það vantar engu að síður gríðarlega mikið upp á, mikilvæga þætti í því að styðja fólk í að verða hluti af íslensku samfélagi. Þar er kannski ekki síst — ég hef átt orðastað um það við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra áður í þessum sal — í tengslum við aðgengi fólks að íslenskukunnáttu, íslenskunámskeiðum og íslenskukennslu. Það aðgengi hefur verið af skornum skammti. Það hafa komið ýmsar athugasemdir varðandi framboð, varðandi eftirlit með gæðum þeirrar kennslu og annað. Það sem vantar er að stjórnvöld taki af skarið og fjármagni það. Íslenskunámskeið eru dýr. Fólk þarf í rauninni að taka þau algerlega á eigin forsendum sem er jákvætt að flestu leyti en gjarnan er kennsla á vinnutíma. Hún er sannarlega alltaf á vinnutíma einhvers af því að sumir vinna á daginn og aðrir eru að vinna á kvöldin. Það sem skiptir kannski mestu máli er að það er enginn raunverulegur hvati, það er engin raunveruleg pressa, og það er engin eftirfylgni með því að fólk læri íslensku. Þetta er gríðarlega mikilvægur og stór þáttur og snýst ekki bara um að við þurfum ekki að tala ensku við strætóbílstjórann. Þetta snýst um að fólk hafi raunverulegt aðgengi að samfélaginu. Ef við komum að samtali sem á sér stað á tungumáli sem við skiljum ekki getum við sannarlega ekki orðið þátttakendur í því. Það segir sig sjálft þó að það hversu augljóst það er endurspeglist kannski ekki í framkvæmd stjórnvalda.

Hitt sem hefur aldrei verið almennilega í boði á Íslandi — ég veit að það eru einhver verkefni í gangi sem eru mjög ný af nálinni hjá Vinnumálastofnun og öðrum aðilum varðandi að kenna fólki og aðstoða það, fræða það um íslenskt samfélag. Þá er ég ekki bara að tala um hver þjóðsöngurinn er, hvernig fáninn lítur út og hvaða tungumál er talað heldur hvernig við berum okkur að í íslensku samfélagi þegar við finnum íbúð. Ég þarf að finna mér íbúð. Hvernig berum við okkur að? Nú hef ég leigt út íbúð og alls konar húsnæði nokkrum sinnum um ævina. Ég fæ kannski tölvupóst frá einni manneskju sem er löng lýsing á hennar aðstæðum, fjárhag, nánast eins og atvinnuumsókn, og það er sannarlega mjög heillandi. Svo kemur póstur sem segir „I will take this apartment,“ með leyfi forseta: Ég ætla að fá þessa íbúð. Það er sannarlega eitthvað sem kannski höfðar ekki til margra leigusala, einfaldlega vegna þess að það er ekki þannig sem kaupin gerast á eyrinni. Þetta hljómar eins og smáatriði en þetta eru ekki smáatriði. Það er grundvallaratriði hvernig við berum okkur að við að afla okkur þeirra grunnnauðsynja sem við þurfum til að geta byggt upp líf. Það er sannarlega þannig að fólk lærir þetta á erfiðan hátt, ef svo má segja, á endanum. Á endanum reddast þetta nú allt saman en það getur kostað óþarflega miklar þjáningar ef fólk fær ekki stuðning við það. Að sjálfsögðu getur það líka orðið til þess að fólk lærir þetta ekki. Það felur í sér útilokun, það leiðir til jaðarsetningar og það hefur ýmsar afleiðingar sem eru engum í hag.

Það að finna sér íbúð er eitt, það að finna sér vinnu — hvernig finnum við okkur vinnu á Íslandi? Reynum við að tala við einhvern sem við þekkjum? Getum við gengið inn á einhvern stað og óskað eftir vinnu? Sækjum við um? Hvað þarf til að sækja um? Þessir hlutir skipta gríðarlega miklu máli, hvernig við tölum saman. Svo er hitt sem er vanmetið, þ.e. hvernig gengur það fyrir sig að finna maka, finna ást? Hvernig finnum við ástina á Íslandi? Göngum við upp að þessari myndarlegu manneskju sem stendur á Hlemmi og spyrjum hana hvort hún vilji giftast okkur? Í sumum samfélögum er það þannig. Það er ekki þannig í okkar samfélagi en hvernig í ósköpunum á fólk að vita það? Þetta eru hlutir sem skipta gríðarlega miklu máli fyrir alla möguleika fólks til að ná árangri í því að verða hluti af samfélaginu. Þetta er eitthvað sem hefur verið vanrækt. Ég held að það hafi verið vanrækt að mörgu leyti vegna vanmats á mikilvægi þess en líka vegna þess að stjórnvöld telja þetta kannski ekki í sínum verkahring eða treysta sér ekki til að sinna þessu hlutverki. Þetta er það sem mér finnst einna helst þurfa að hafa í huga varðandi þær breytingar og það sem við erum að tala um, þá þjónustu sem við erum að tala um hér. Félagslegur stuðningur við aðlögum snýst ekki bara um að hjálpa þér að finna íbúð og sækja um húsaleigubætur, hann snýst um að finna dyr inn í samfélagið.

Kannski eru þau verkefni sem hafa verið einna farsælust að því leyti leiðsögumanna-, vina- og fjölskylduverkefni sem hafa verið á vegum Rauða krossins um nokkurra ára skeið þar sem sköpuð eru vinatengsl. Við vitum að maður kemst ekki inn í neitt samfélag nema með raunverulegum vinatengslum. Við þekkjum það sjálf Íslendingar sem höfum búið í samfélögum mjög líkum okkar. Það getur samt verið erfitt að komast þar inn nema að efla eða verða sér úti um almennileg tengsl inn í samfélagið.

Af þessu tilefni langar mig til að vekja sérstaka athygli á því að það var góð umsögn sem barst um þetta frumvarp frá ASÍ. Ég ætla að fá að lesa upp úr henni þar sem þetta er bara mjög vel orðað hjá Alþýðusambandinu, með leyfi forseta:

„Þótt frumvarpið feli í sér ótvíræð framfaraskref þarf að ganga lengra til að gera flóttafólki kleift að aðlagast íslensku samfélagi og verða fullir þátttakendur á vinnumarkaði. Móta þarf heildræna stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda og flóttafólks til framtíðar.“ — Slík stefna hefur aldrei almennilega verið mótuð og það er áhugavert út af fyrir sig. — „Þar þarf að horfa til allra sviða samfélagsins sem lúta að innflytjendum og flóttafólki og þjónustu við það í þeirra daglega lífi, þ.m.t. heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins. Sérstaklega þarf að líta til þátttöku flóttafólks á vinnumarkaði og tryggja aðgengi þeirra að störfum við hæfi. Æskilegt er að líta til hinna Norðurlandanna sem hafa mun víðtækara og heildrænna móttökukerfi fyrir flóttafólk en Ísland.“

Það sem einnig er gerð athugasemd við í þessari mjög góðu umsögn Alþýðusambands Íslands varðar tölfræði og rannsóknir á velferð flóttafólks á Íslandi. Það er lítið um rannsóknir. Það er erfitt að fá tölfræðilegar upplýsingar um það t.d. hvaðan fólk fær tekjur sínar. Í rauninni er þessi tölfræði og annað forsenda þess að hægt sé að greina vandann og finna lausn til frambúðar.

Það er síðan alltaf vandamál sem hefur verið vanmetið og er mjög vanrækt, og ég átta mig reyndar ekki alveg á því hvers vegna það vandamál er jafn þrálátt og raun ber vitni, og það varðar aftur tungumálið, varðar þýðingar og túlkun. Víða í lögum er gerð krafa um að fólk hafi aðgengi að túlkum, það fái túlkun, fái þýðingu og annað, en þetta er vanrækt á mjög mörgum sviðum. Í nútímasamfélagi höfum við greiðan aðgang að góðri túlkaþjónustu í gegnum síma. Sjálf rak ég lögmannsstofu til mjög skamms tíma áður en ég settist á þing og hjá Rauða krossinum vorum við með samning við túlkaþjónustu í Bretlandi. Ég held meira að segja að fyrirtækið sé fyrst og fremst í Bandaríkjunum en útibúið sem við áttum viðskipti við var í Bretlandi. Það virkaði þannig að ég hringdi í símanúmer og gat fengið túlk á 70 tungumálum á innan við 30 sekúndum. Þetta er eitthvað sem einhver stjórnvöld hafa tileinkað sér. Þetta er hægt. Þetta er ekkert mál. Reyndar krefst það þess að aðilinn hérna megin við línuna tali og skilji ensku sem ég held að sé ekki stórt vandamál í okkar samfélagi.

Ég er að renna út á tíma, ótrúlegt en satt þar sem ég er bara á fyrsta punktinum af þremur blaðsíðum af punktum sem ég er með hér. Ég ætla að láta staðar numið að sinni. Það er þetta sem ég tel gríðarlega mikilvægt að líta til. Ég hvet hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra til þess að hafa þetta sterkt í huga, ekki vanmeta þessa þætti. Ég fagna þessu frumvarpi og þessari þróun og megi hún halda áfram í rétta átt.