152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að tölfræðin frá Útlendingastofnun sé svo sem alveg áreiðanleg. Það sem ég átti við var að hún er lítið marktæk þar sem um lágar tölur er að ræða og þá tvöfaldast hún með mjög litlum fjölda.

Hv. þingmaður talar um að hann vilji gera betur og gera betur við færri einstaklinga ef ég skil þetta rétt. Hv. þingmaður vill ekki fara þá leið sem lögð er til í þeim lögum sem þarna er verið að breyta, að jafna þjónustu við fólk sama hvernig það kemur. Mig langar því til að spyrja hv. þingmann: Hvernig vill hann gera betur? Vill hann gera betur með því að skerða þjónustu við flóttafólk? Af því að þjónustan er það sem dregur fólk að, samkvæmt kenningum hv. þingmanns ef ég skil hann rétt, sem ég reyndar held að sé alls ekki tilfellið. Þá hlýtur það að gera betur — ætti það ekki að vera að auka þjónustuna? En ef við ætlum ekki að hafa aðdráttarafl í því hlýtur það að þýða að skerða þjónustuna. Miðað við mína reynslu er ástæðan fyrir því að fólk leitar til Íslands sú að hér telur það mannréttindi vera virt. Hvernig gerum við betur án þess að auka á aðdráttarafl Íslands fyrir fólk í neyð?