152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svar mitt er nei. Ég tel enga þörf á því að setja því neinar skorður. Ástæðan fyrir því er ekki sú að ég telji Ísland alveg í stakk búið til að taka á móti þeim hundruðum milljóna flóttamanna sem eru á flótta í heiminum heldur vegna þess að ég hef engar áhyggjur af því að hálfur heimurinn sé að fara að koma hingað. Það er nákvæmlega vegna þess sem hv. þingmaður segir, fólk leitar þangað sem það upplifir von um betra líf, hvort sem það er hreinlega bara líf yfir höfuð eða skjól. Það er enginn sem vill einfaldlega bara búa þar sem hann er á lífi. Við viljum öll lifa, við viljum hafa atvinnu, við viljum hafa eitthvað fyrir stafni, viljum jafnvel eiga fjölskyldu. Við viljum gera eitthvað við tímann okkar. Það er ekki nóg að fólk geti verið einhvers staðar þar sem það verður ekki skotið á færi ef það tekur eitt skref til hægri. Ég hef engar áhyggjur af þessu vegna þess að það sem fólk er að leita að eru tækifæri. Það er það sem við eigum við með góðu lífi, betra lífi. Fólk mun koma hingað á meðan það eru tækifæri. Þetta höfum við séð með þeirri tilraun sem ég myndi segja hafi verið ansi árangursrík sem heitir EES-svæðið og með ferðafrelsinu innan þess. Það er ekki eins og það hafi verið Íslandi annað en til heilla að hingað geti komið fólk til að leita betri tækifæra þegar hér eru tækifæri vegna þess að síðan þegar tækifærin hverfa þá hættir fólk að koma. Þannig næst jafnvægi. Ef fólk fær að elta sína hæfileika með ferðafrelsinu skapast jafnvægi. Með öllum þessum þvingunum erum við að þvinga hlutina í skorður sem eru engum til heilla.

Annað sem mig langar að nefna í dag og úr því að hv. þingmaður endurtekur ýmislegt sem hann hefur áður sagt og er þar sennilega, hugsa ég, svolítið að tala til sinna kjósenda, þá ætla ég, mögulega gegn betri vitund, afsakið, að fá að endurtaka mig aðeins líka vegna þess að ég hef sagt þetta margoft hér í pontu og mun gera það oftar: (Forseti hringir.) Í dag eru 500 milljónir manna sem geta komið til Íslands, sest hér að án þess að spyrja kóng eða prest, allir EES-borgarar. Í Grikklandi búa 10 milljónir. Í Grikklandi er 40% atvinnuleysi á meðal ungs fólks. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvar eru Grikkirnir?