152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:37]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Hann svaraði henni reyndar eiginlega sjálfur: Þetta er misjafnt eftir ríkjum. Það er mjög misjafnt eftir ríkjum hvaða aðgengi hælisleitendur hafa, sem sagt fólk sem er að bíða eftir svari við umsókn sinni um alþjóðlega vernd, fólk með alþjóðlega vernd er alltaf með atvinnuleyfi í öllum ríkjum enda gerir flóttamannasamningurinn kröfu um það. Svo er það fólk með svokölluð dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sem eru til í ýmissi mynd í Evrópuríkjum. Það eru ekki samræmd leyfi og það er mjög misjafnt hvort þessir einstaklingar fái atvinnuleyfi með dvalarleyfinu. Evrópulöggjöf gerir það að skilyrði að þessir einstaklingar hafi aðgang að vinnumarkaðnum. Vandinn er sá að það að geta sótt um atvinnuleyfi telst í þessum skilningi vera aðgangur að vinnumarkaði. Vandamálið þar er vitanlega það sem er vandamálið að mjög mörgu leyti í þessum málaflokki yfir höfuð, sem er að það er ekki það sama í orði og á borði, það sem stendur á blaði er kannski ekki alveg það sem er reyndin í raunveruleikanum. Það að einstaklingur hafi kost á því að sækja um atvinnuleyfi þýðir ekki í fyrsta lagi að hann fái atvinnuleyfi og það getur falið í sér gríðarlega miklar hindranir og gríðarlega torvelt aðgengi að vinnumarkaði. Hvað þetta varðar, þarna erum við að tala um einstaklinga sem eru búnir að fá dvalarleyfi, þá sé ég ekki persónulega hvaða sjónarmið búa að baki því að fólk sem fær rétt til að vera hérna fái ekki rétt til að vinna. Mig grunar að það séu einhver vinnumarkaðssjónarmið. Það eru ýmsir þættir sem þarf að huga að. En svarið við spurningu hv. þingmanns er þetta: Þetta er mjög misjafnt á milli landa en í mörgum ríkjum fær fólk í þessari stöðu sjálfkrafa atvinnuleyfi.