Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

dagskrártillaga.

[10:31]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseta hefur borist eftirfarandi dagskrártillaga og eftirfarandi bréf:

„Undirritaður gerir það að tillögu sinni í samræmi við 1. mgr. 77. gr. laga um þingsköp Alþingis að á dagskrá næsta þingfundar verði þau dagskrármál sem forseti Alþingis leggur til, að því undanskildu að út af dagskrá fundarins verði tekið 595. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, alþjóðleg vernd. Þess er óskað að þessi tillaga verði borin upp til afgreiðslu í samræmi við áðurnefnda grein þingskapa.“

Undir þetta bréf ritar hv. þm. Andrés Ingi Jónsson.

Forseti vill geta þess að forseti taldi rétt að taka nokkurn tíma til að átta sig á þessari tillögu vegna þess að hún er nokkuð óvenjuleg miðað við þær dagskrártillögur sem forseti hefur séð áður, enda verið að leggja til að út af dagskrá fundar sé tekið mál sem ekki er komið á dagskrá. Venjan hefur verið sú að dagskrártillögur hafa snúist um að taka mál á dagskrá þannig að þetta var með nokkuð öðrum formerkjum heldur en forseti hefur séð áður. Engu að síður telur forseti rétt, af því að ákvæði 1. mgr. 77. gr. felur í sér að þingmenn geta borið atriði sem varða dagskrá undir þingfund, að fram fari atkvæðagreiðsla um tillöguna og mun nú forseti kalla til atkvæðagreiðslu um hana.

Það er ekki undanþága frá því að menn geti tekið til máls um atkvæðagreiðslu í samband við dagskrártillögu þó að ekki sé gert ráð fyrir því að umræða fari fram. En það er ekki undan því vikist að gefa mönnum kost á annars vegar að tjá sig um atkvæðagreiðslu og hins vegar að gefa atkvæðaskýringar.