Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

dagskrártillaga.

[10:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er ákaflega sérstakt mál á ferðinni og dæmi um það að rétt sé að kæfa mál í fæðingu. Það er áður en málefnaleg umræða getur farið fram á löggjafarþinginu þar sem er tekist á um mismunandi sjónarmið í málum. Þá er gerð tilraun af ákveðnum þingmönnum stjórnarandstöðunnar til að kæfa málið fæðingu. Þetta eru þingmenn sem gjarnan kenna sig við mikla lýðræðisást, en þetta er nú öll virðingin fyrir lýðræðinu. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á það hér í þingræðu í gær að ef þetta mál færi á dagskrá þá yrði hér allt í skrúfunni, þá kæmist hér ekkert áfram. Þarna endurspeglast auðvitað viðhorf alla vega einhverra þingmanna í stjórnarandstöðunni, af hverju þetta ósmekklega málþóf sem hér hefur verið stundað í langan tíma er á vettvangi. Ég tel, virðulegur forseti, mikilvægt við þessar aðstæður að við tilkynnum það nú þegar að þingið muni standa a.m.k. út júní til að hér geti farið fram sómasamlegar umræðu um þau mál sem eru á dagskrá.