Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

dagskrártillaga.

[10:37]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég tek undir með samflokksmönnum mínum á undan mér, það er vissulega sjálfsögð skylda okkar hér að tala fyrir sannfæringu okkar en það er mikil bjögun á því hlutverki að ætla að aftra því að mál séu sett á dagskrá, rædd og rökrædd. Það er hlutverkið. Eins og hefur þegar komið fram er algjörlega augljóst að það er taktíkin hér, og hefur reyndar verið í nokkrar vikur, að það á bara að koma í veg fyrir það. Það er ekkert nýtt að minni hlutinn vill gjarnan og finnst eflaust að hann ætti að vera í meiri hluta. Það er ekkert nýtt í því. En það er með ólíkindum að minni hlutinn nú stundi viðlíka sjálftöku á lýðræðislegu umboði þings og hlutverki þess.(Gripið fram í: Heyr, heyr.)