152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

athugasemdir viðskiptaráðherra við fyrirkomulag bankasölu.

[11:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Það voru pólitísk stórtíðindi um páskana þegar hæstv. viðskiptaráðherra greindi opinberlega frá því að hún hefði verið mótfallin þeirri leið sem fjármálaráðherra lagði til og fór um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún hefði komið því skýrt á framfæri í aðdraganda útboðs. Hún hefði ekki viljað að bréf yrðu seld til valins hóps fjárfesta og, síðast en ekki síst, að fátt kæmi henni á óvart um það hver útkoman var. Skilaboðin voru skýr og þjóðin skildi þau: Á mig var ekki hlustað. Við blasir að forsætisráðherra og fjármálaráðherra fóru gegn varnaðarorðunum. Bréfin voru seld til valins hóps á afslætti. Viðskiptaráðherra, sem fer með samkeppnismál í ríkisstjórninni, hefur bæði fagþekkingu og reynslu á þessu sviði. Í gær sagði Bankasýslan á fundi fjárlaganefndar að stærsti galli þessarar sölu hefðu verið hagsmunaárekstrarnir sem nú blasa við þjóðinni. Þeir eru alltumvefjandi í sölunni, enda er það þannig að útvaldir og pabbi þeirra fengu að kaupa á afslætti. Ég viðurkenni að ég upplifði það sem ómerkilegt spark þegar samstarfsflokkarnir svara orðum ráðherrans með engu öðru um að bókun liggi ekki fyrir. Þau hafa aldrei getað neitað því að þetta voru orð ráðherrans sem hún staðfestir reyndar hér í dag. Allir vita að hefði viðskiptaráðherra bókað gegn forsætis- og fjármálaráðherra á þriggja manna ráðherrafundi um þriðju stærstu einkavæðingu sögunnar þá hefði það jafngilt því að slíta þessu stjórnarsamstarfi. Það veit forsætisráðherra. En ég vildi spyrja hæstv. viðskiptaráðherra að því hvernig henni leið þegar hennar eigin formaður fylgdi ekki ráðum hennar. Upplýsti formaður Framsóknarflokksins hann um það hvers vegna hann valdi að valta yfir hana?