Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

athugasemdir viðskiptaráðherra við fyrirkomulag bankasölu.

[11:15]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra er hér að staðfesta að formaður Framsóknarflokksins valtaði yfir hana. Hún segir: Það eru ekkert alltaf allir sammála. Við vitum hver niðurstaðan var og er. Við vitum að 83% þjóðarinnar eru í sárum vegna þessarar leiðar. Það er pungspark í þjóðina að standa hér og tala um það eftir söluna að þau hafi kannski bara öll vitað að þau væru að fara ranga leið. Þriðja stærsta einkavæðing sögunnar, 53 milljarðar, rosagott að taka samtalið eftir á. Ég er á því að viðskiptaráðherra sé hér að gerast brotleg við siðareglur ráðherra. Hún upplýsti ekki þjóðina, hún upplýsti ekki þingið. Hún virðist hafa upplýst formann Framsóknarflokksins sem valtar yfir hana. En ég vil spyrja viðskiptaráðherra út í önnur orð sem féllu líka um páskana og vöktu minni athygli og fólu í sér pólitísk stórtíðindi þegar hún sagði að það myndi fleira koma í ljós í þessu máli á næstu dögum. Í hvað var ráðherra að vísa þar?