152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér kveður við sama tón og undanfarið hefur verið í þessum málum. Traustið er allt. Það skapast nú m.a. af málflutningi og trúverðugleika þeirra sem tala á hverjum tíma. Hér talar hv. þm. Kristrún Frostadóttir um að milljarðar sem ríkissjóður lagði inn í Seðlabankann hafi verið kostnaður almennings. Það er svona eins og þegar við tökum okkar eigið fé og leggjum inn í okkar eigin banka, að það sé okkar eigin kostnaður. Þetta er auðvitað algerlega fráleitt og er ekki gert í öðrum tilgangi en að villa um fyrir almenningi. Hún getur kannski upplýst okkur um það hérna og kennt okkur það hvernig við getum búið til 80 milljónir úr 3 milljónum eins og hún gerði í sínu fyrra starfi. (Gripið fram í.) Það er áhugavert að heyra hvernig það er gert. Hér tala hæst þeir sem vildu gera ráðstafanir eftir bankahrunið sem hefðu skilið íslenska þjóð eftir í verulegum sárum, við værum skuldsett í dag upp fyrir haus og ættum erfitt með að vinna okkur út úr því, þ.e. fulltrúar þeirra flokka sem þá voru í ríkisstjórn. Þær ráðstafanir sem síðan hafa verið gerðar í bankamálum (Forseti hringir.) gera það að verkum að hér er aldrei hægt að endurtaka það sem gerðist þá í íslensku umhverfi. Það er mikilvægt að halda því til haga. (Forseti hringir.) Því er með algerlega órökstuddum hætti verið að reyna að líkja (Forseti hringir.) þessu máli eitthvað við bankahrunið. Það á bara ekkert skylt við það.