152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[14:21]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér áðan kom hver þingmaðurinn á fætur öðrum upp í pontu, fullur heilagrar vandlætingar yfir því að þingmenn hér í salnum hefðu lagt fram tillögu að breyttri dagskrá, sem er nú bara réttur þingmanna samkvæmt þingsköpum. Ég held að sú tillaga hafi sannarlega átt rétt á sér. Við sjáum hérna dagskrá sem varpar ljósi á það að ríkisstjórninni finnst mikilvægara að ræða frumvarp um skerðingu á réttindum hælisleitenda heldur en t.d. að koma til nefndar mjög mikilvægum málum sem voru gefin fyrirheit um í lífskjarasamningunum 2019, t.d. um aðgerðir gegn launaþjófnaði (Forseti hringir.) og um breytingar á starfskjaralögum til þess að verja réttarstöðu leigjenda. (Forseti hringir.) Þessi dagskrá lýsir forgangsröðuninni hjá ríkisstjórninni.