152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[14:32]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir það tækifæri sem hér er gefið til að ræða um loftslagsmál, markmið Íslands í samdrætti og um orkumálin í því stóra samhengi. Ég ætla samt að fá að viðurkenna hér í upphafi þessarar ræðu minnar að ég átti og hafði gert mér vonir um að hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kæmi kannski með meiri tíðindi til okkar en að segja okkur frá stöðuskýrslunni sem var birt í síðasta mánuði. Vonandi hafa allir áhugasamir þingmenn kynnt sér efni hennar. Hún er, eins og hæstv. ráðherra tók skýrt fram, stöðuskjal en ekki stefnuskjal og þar er nú líklega hundurinn grafinn í því máli sem hér er verið að ræða, einhverju mikilvægasta máli sem stjórnvöld um allan heim og almenningur fást við, þ.e. hamfarahlýnuninni sem er hafin, hún er ekki lengur fram undan, er ekki lengur möguleg, hún er hafin og við erum á vondum stað hvað hana varðar, jarðarbúar.

Ég vil líka taka fram að ég held að það hefði gert meira gagn fyrir framvindu umræðunnar að skrifa skýrslu með aðferðafræði grænbókarinnar til að leggja þannig betur grunn að stefnumótuninni af því að ef ég þekki það verkferli rétt þá byrjar maður á því að ná utan um verkefnið með grænbók, tínir til öll atriði sem þarf að fjalla um og notar síðan það samtal til að móta stefnu um það.

En það er ekki þar með sagt að engin sé stefnan. Það er jú búið að móta ýmiss konar stefnu er varðar orkumál, loftslagsmál og hin stóru alltumlykjandi umhverfismál hér á landi. Orkustefna til 2050 var kynnt líklega í hittiðfyrra og þar er eitt af meginmarkmiðum að orkuþörf samfélags sé ávallt uppfyllt. Það er mjög mikilvægt hvað við skilgreinum sem orkuþörf samfélags, því að það getur aldrei verið þannig að það sé opinbert markmið stjórnvalda að uppfylla alla orkuþörf hver sem hún er. Orkuþörf samfélags hlýtur að snúast um orkuþörf almennings annars vegar og hins vegar venjulegra fyrirtækja og fyrir utan þann sviga er orkuþörf stóriðjunnar. Þetta er mjög mikilvægur upphafspunktur í þessari umræðu af því að ef við erum ekki sammála um þetta þá er mjög erfitt að setja niður markmið og ná sátt um stefnuna fram á við.

Hæstv. ráðherra nefndi rammaáætlun um orkunýtingu náttúrusvæða og það er rétt að hún hefur staðið föst í sjö ár. Ég þekki það mál ekki öðruvísi en svo að hún hafi staðið föst í Alþingi í boði þeirra flokka sem nú eru við stjórn, þ.e. Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og e.t.v. Miðflokksins líka. Það hefur verið látið fylgja að ef þetta gangi ekki núna sé verkfærið ónýtt. Ég gef lítið fyrir þann málflutning. Verkfærið er gott, það þarf að fylgja því. Að sjálfsögðu þarf að betrumbæta og endurskoða og fást alltaf við verkefnið miðað við bestu fáanlegu þekkingu og nýjustu upplýsingar. En það er holur hljómur í því að ætla að henda verkfæri sem við höfum í rauninni bara nýtt í einni umferð. Ég heyri þar á bak við málflutning orkufyrirtækjanna í landinu, Samtaka iðnaðarins, Samorku og annarra sem hafa lagt sitt til í opinberri umræðu til að grafa undan aðferðafræði rammaáætlunar. Ég vara við því, frú forseti, að það sé gert hér í þessum sal. Við eigum öll að vita miklu betur.

Orkuskiptin eru að sjálfsögðu fram undan og þau eru auðvitað löngu hafin á Íslandi eins og margoft hefur komið fram. Við bárum gæfu til að leiða heitt vatn í hús og hita húsin okkar upp með jarðvarma og við höfum nýtt raforkuna mestmegnis með farsælum hætti hér á landi. Stóra málið hér er að kortleggja þær ákvarðanir og þær framkvæmdir og þau markmið sem við ætlum að ná á næstu 10, 20, 30 árum. Allar ákvarðanir stjórnvalda, allar opinberar fjárfestingar, hvort sem er í samgöngumálum, landbúnaðarmálum eða öðru, verða að miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra. Þetta þarf að kortleggja. Við vitum að það er nærtækast að byrja á orkuskiptum eða fara næst í orkuskipti í samgöngum á landi. Okkur er sagt að það taki svona sirka 5% af þeirri orkunýtingu sem nú þegar er í landinu. Það er vissulega umtalsvert en það er kannski ekki svo mikið þegar við berum það saman við flutningstöpin sem verða í flutningskerfinu. Þau eru að mér skilst 4,5% af framleiðslunni þannig að ef við kæmum í veg fyrir flutningstapið þá værum við komin langt með að eiga orku fyrir orkuskipti í samgöngum á landi. Það er fjarlægara að ráðast í orkuskipti í samgöngum á sjó. Það er þó miklu nær en í flugi. En þetta eru langtímamarkmiðin sem við verðum að sjálfsögðu að setja okkur.

Ég vil nota þetta tækifæri til að benda á að raforkulög, eins og þau eru núna, raforkulöggjöfin íslenska, leyfa stjórnvöldum ekki að forgangsraða til orkuskipta. Það er mjög bagalegt. Það er hægt að ráðast í raforkuframleiðslu og virkjanir og annað slíkt en það er ekkert í löggjöfinni sem veitir stjórnvöldum svigrúm til að beina þeirri raforkuöflun í átt að orkuskiptum. Það er m.a. vegna þess að alþjónusta svokölluð, „public service obligation“, eins og það heitir, hefur ekki verið skilgreind með fullnægjandi hætti í raforkulögunum. Okkur ber að gera það samkvæmt þriðja orkupakkanum sem var lögfestur árið 2019 og við höfum ekki lokið við innleiðingu hans. Þetta er forgangsverkefni fyrir ríkisstjórnina. Það þarf líka að skilgreina hlutverk allra aðila á raforkumarkaði við að tryggja raforkuöryggi. Það þarf að tryggja raforkuöryggi til kaupenda á almennum markaði og skilgreina forgang þeirra ef svo óheppilega vill til að til skömmtunar kemur, eins og gerist reglulega í lokuðum raforkukerfum eins og okkar, og það þarf að veita Orkustofnun lagaheimild til þess að grípa inn á orkumarkaði svo hægt sé að tryggja raforkuöryggi á almennum markaði. Ef þetta er gert með nauðsynlegum lagabreytingum í raforkulögum og ef við náum utan um þetta verkefni og tryggjum raunverulegt raforkuöryggi almennings og fyrirtækja um allt land þá erum við mjög langt komin í því að stuðla að skynsamlegum og sanngjörnum orkuskiptum og skynsamlegri og sanngjarnri nýtingu raforkunnar.

Aðra sögu er að segja um stórnotendur. Þeir keppa á heimsmarkaði, þeir greiða heimsmarkaðsverð eða markaðsverð fyrir orkuna. Þetta eru og eiga að vera tveir aðskildir markaðir og okkur ber að koma því þannig fyrir hér og að stuðla að því að breyta raforkulögum með þeim hætti og ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á þessu mikilvæga máli og vona að hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra veiti því athygli.

Við höfum lengi talað um orkumálin og loftslagsmálin þannig að tíminn sé naumur. Það er því miður þannig, frú forseti, að tíminn er liðinn. Allt sem við gerum núna er í rauninni skaðaminnkun, tilraun til þess að koma í veg fyrir hörmulegar afleiðingar hamfarahlýnunar, bæði hér á landi og um allan heim. Við verðum að gjöra svo vel öll að standa saman um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi, tryggja raforkuöryggi, nýta okkar endurnýjanlegu orku með skynsamlegum hætti og sjá til þess að auðlindarentan, að rentan af þeirri nýtingu, ef um einkaaðila er að ræða, renni í ríkissjóð. Ég vildi að þetta kæmi fram við þessa skýrsluumræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir að efna til hennar.