152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[14:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er dálítið langur titill á þessari umræðu en hún snýst um það að setja framtíðarsýn í orkumálum í samhengi við markmið og áherslur stjórnvalda í loftslagsmálum. Í því ljósi er dálítið áhugavert að ráðherra loftslagsmála gerði þetta ekki. Jú, jú, hann vísaði til þess hvernig skýrsluhöfundar töluðu aðeins um loftslagsmálin til að réttlæta gömlu góðu orkusæknu stefnuna en það var ekki orði minnst á hver markmið ráðherrans í loftslagsmálum eru og það er eitthvað sem við höfum reynt að særa fram úr honum hér í sal ítrekað og gengur ekki. Það stendur eitthvað í stjórnarsáttmála en alltaf þegar við spyrjum: Hvernig á að framfylgja því? Hvernig á að festa það í lög? Hvernig á að fylgja því eftir í fjármálaáætluninni eða í fjárlögum? þá brestur ráðherrann á með gömlu tuggunni um að það skipti ekki máli hvað hann segi heldur hvað hann geri og gerir svo ekki neitt.

Það rifjaðist upp fyrir mér tónlistarmaður sem heitir Prince, mörg ágæt lög þar. Undir lok síðustu aldar ákvað hann að hætta að kalla sig Prince og þá töluðum við alltaf um listamanninn sem eitt sinn kallaði sig Prince. Það var dálítil tugga, það var ekki þægilegasta listamannsnafnið. En það er orðið yfirskrift þess sem einu sinni hét grænbók um orkumál sem við ræðum hér í dag. Það er dálítið vandræðalegt eiginlega að ráðherra hafi sett þessa vinnu af stað á sínum fyrstu vikum í embætti og ekki lagt verkið betur upp en svo að það sem átti að verða grænbók, sem er frábær hugmynd, varð að einhverri samantekt á óskalistum orkufyrirtækjanna. Grænbók um orkumál væri mjög gagnlegt verkfæri til þess að jarðtengja umræðu um langtímasýn okkar í þessum málaflokki þar sem væru tekin til skoðunar ólík sjónarmið og þau unnin með sérfræðingum yfir aðeins lengri tíma en þær fjórar vikur sem voru teknar í að hlaupa í gegnum þessa skýrsluvinnu. Og hvað var gert? Það var t.d. engin sjálfstæð greining framkvæmd. Stórir kaflar í skýrslunni eru bara teknir beint upp frá hagsmunaaðilunum sem eru jú líka þeir aðilar sem vita kannski mest hvað er í farvatninu og eru með sérfræðinga til að reikna út úr því hvaða áhrif það hefur, hvers er að vænta þar, en þarf ekki ríkið stundum að slíta sig aðeins frá hagsmunaöflunum og leggja sjálfstætt mat á hlutina? Þar að auki vakti auðvitað athygli að skýrslan er samin af þremur aðilum. Það voru þrír einstaklingar skipaðir í ritstjórn og tveir þeirra frá Samtökum atvinnulífsins, frá beinum hagsmunasamtökum aukinnar orkuvinnslu sem, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn, föttuðu á síðustu árum að það væri hægt að taka gamla drauma um botnvirkjun Íslands og klæða þá í grænan búning og selja sem lausn á loftslagsvandanum.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því framlagi sem endurnýjanleg orka hefur til íslensks samfélags eða þeirra möguleika sem við eigum inn í framtíðina en það er ekkert pælingin þarna, það er ekkert pælingin hjá Sjálfstæðisflokknum, heldur er bara verið að „PR“-a, það er verið að klæða í nýjan búning gamla drauma. Ef við bara skoðum einföldustu tímalínuna yfir það hvernig vatnsaflsvirkjun er skipulögð, reist og sett í notkun þá segir það sig sjálft að engin af þessum hugmyndum er að fara að skila einhverju til samdráttar í losun innan þess tímaramma sem við vorum að tala um í loftslagsmálum. Þar þurfum við að ná raunverulegum árangri árið 2030. Þá er uppgjör. Virkjun sem er sett af stað árið 2022 í skipulagsfasa er ekki að fara að dæla mörgum megavöttum inn á kerfið 2030.

Það sem sló mig líka þegar ég skoðaði skýrsluna á sínum tíma, og það eldist ekki vel, það súrnar dálítið í þeirri staðreynd að hagsmunaaðilarnir hafi átt þetta greiðan aðgang og fengið sínar sviðsmyndir, fengið þeim lyft upp beint inn í skýrsluna á meðan hagsmunasamtök náttúrunnar, Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd, sem skiluðu aðeins grófari hugmynd heldur en fólkið með sérfræðingana og verkfræðingana á fullum launum, þeirra hugmynd er jaðarsett og nánast afskrifuð sem óútfærð og einhvern veginn hálfbjánaleg. Hvernig hefði t.d. verið ef ríkið hefði tekið eitthvað af þessari 81 milljón sem fór á síðasta ári til að niðurgreiða rekstur Samtaka atvinnulífsins í gegnum opinber hlutafélög, tekið eitthvað af þeim pening til að reikna út fyrir Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands hvernig þeirra sviðsmynd liti út í raun og veru? Það var ekki gert og í staðinn var farið fram með nokkuð óábyrgum málflutningi á vegum þeirra sem stóðu að skýrslunni og talað eins og ýtrasta sviðsmynd orkufyrirtækjanna sem var lögð inn í skýrsluna væri einhvern veginn það sem ætti að vinna út frá, sviðsmynd sem gengur út á það að taka í notkun 100 ný megavött á hverju ári sem jafngildir því að næstu 18 árin, til ársins 2030, þurfi að virkja ígildi fimm Kárahnjúkavirkjana. Þetta er dálítið bratt í landi þar sem meiri orka er framleidd fyrir hvern íbúa en í nokkru öðru landi, svo mikið meiri að í öðru sæti á listanum er Noregur með helmingi minni raforku á hvern íbúa, og 80% af þessari orku fer á nokkuð hagstæðu verði til stóriðju.

Það sem ekki var tekið tillit til í þessari skýrslu, og það er eitthvað sem við þurfum að taka til okkar í frekari umræðu, er að það er ekki þannig að ákvörðun um að virkja ekki, ákvörðun um náttúruvernd, sé ekki líka loftslagsaðgerð. Jú, jú, það að nota græna orku í græna framleiðslu eða eitthvað sem hefur minni skaðleg áhrif á umhverfið en eitthvað annað getur haft jákvæð áhrif á loftslagið. En það er beinlínis svo að náttúruvernd er loftslagsaðgerð, hvort sem við tölum um það að vernda náttúru til þess að binda á henni kolefni eða vernda náttúru til að auka viðnámsþrótt umhverfisins og samfélagsins gegn loftslagsbreytingum. Það að vernda náttúru er sjálfstætt markmið þegar kemur að loftslagsmálum. Nefnum aftur Kárahnjúkana þar sem ein af afleiðingum þeirrar hryllilegu virkjunar er að þar myndast á hverju ári rosalega stórt uppfokssvæði þar sem jarðvegur fýkur á haf út. Það eru neikvæð loftslagsáhrif. Jarðvegseyðing er eitt af stærstu áskorunarefnum Íslands í loftslagsmálum.

En vegna þess að yfirskriftin er sem sagt að skoða orkumálin með vísan til markmiða í loftslagsmálum þá má ég til með að benda fólki sem lítur yfir skýrsluna, sem einu sinni hét grænbók, á það að höfundar hennar líta hýru auga til Danmerkur þar sem ýmis markmið hafa verið sett til lengri tíma. Eitt þeirra er að það er búið að lögfesta markmið ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að það er ekki bara tala á blaði heldur snýst það um að stjórnvöld geri það ljóst, geri öllum ljóst og líka sjálfum sér, hvað það er sem þarf að stefna að. Þetta hefur ríkisstjórn Íslands ekki viljað gera og er þó með þriðjungi metnaðarminni markmið en danska ríkisstjórnin. Svo er allt hitt regluverkið sem við erum í bölvuðum vandræðum með, ekki síst vegna þvermóðsku núverandi stjórnarflokka og innvortisátaka í stjórnarliðinu. Tölum um rammaáætlun. Hér eru stjórnarliðar stundum farnir að tala eins og ef rammaáætlun klárist ekki á þessu þingi þá getum við bara farið að leggja hana niður. Árinni kennir illur ræðari. Höfum við einhvern tímann séð skýrara dæmi um það? Bara vegna þess að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa frá árinu 2016 verið í einhverri störukeppni um niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar þá ætlum við að umturna kerfinu. Þetta er svona eins og þegar Bankasýslunni var hent undir rútuna þegar Sjálfstæðismaður gat ekki einkavætt banka án þess að gefa pabba sínum hluta af honum. Vegna þessara störukeppni milli stjórnarflokkanna þá stöndum við frammi fyrir því að rammaáætlun, sem á að vera heildarmat á ólíkum hagsmunum varðandi alla virkjunarkosti á landinu, er núna unnin í þremur bútum. 3. áfangi rammaáætlunar er hjá þingi enn einu sinni eftir að stjórnarflokkarnir klúðruðu því á síðasta kjörtímabili að klára. 4. áfangi kláraðist ekki en það eru svona drög að tillögum sem þáverandi verkefnisstjórn skilaði frá sér áður en hún lauk embætti sínu og það er verið að vinna að 5. áfanga. Heildarsýnin á milli þessara þriggja áfanga hlýtur að tapast. Af því að þeim sem eru spenntust fyrir virkjunum er svo tamt að kenna umhverfisverndarsinnum um tafir á framkvæmdum þá skulum við bara halda því alveg til haga að tafir á rammaáætlun eru ekkert vegna umhverfissinna heldur vegna stjórnmálaflokkanna sem vilja þessar virkjanir. Þau vilja þær bara svo mikið að þau rústa verkfærunum sem þarf til að koma þeim á koppinn.

Svo er eitt sem vantar í þessa skýrslu og vantar í, að mér sýnist, hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar almennt. Það er að það þarf snúa baki við þessari ósjálfbæru sýn á það hvernig samfélag þróast til framtíðar. Það er t.d. ranglega sagt um sviðsmynd sex sem kemur frá umhverfisverndarsamtökum í skýrslunni að þar sé talað fyrir engum hagvexti þegar hið rétta er að það er talað fyrir hagvexti en bara hagvexti innan þeirra marka að hann verði sá sami út tímabilið reiknað á hvern íbúa landsins. Þar með eykst landsframleiðsla Íslands í samræmi við fólksfjölgun en við erum ekki stöðugt að nota ranghugmyndina um óendanlegan línulegan hagvöxt sem gengur ekki upp á jörð sem býr yfir endanlegum auðlindum. Við þurfum að snúa baki við því alveg eins og við þurfum að snúa baki við stóriðjustefnunni sem flokkarnir í ríkisstjórn hafa klætt grænum álpappír og kalla loftslagsstefnu. Við þurfum kjarkaða ríkisstjórn sem talar ekki bara fyrir tæknilegum lausnum (Forseti hringir.) og því að koma orkuauðlindum til vina sinna heldur líka að breyta neysluvenjum í alvöru, að umbylta samgöngukerfum (Forseti hringir.) og aðlaga samfélagið frá rótum. Íslensk stjórnvöld eru ekki að nýta sér þau tækifæri sem við búum yfir.