152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[15:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér úttekt starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum sem kom út í síðasta mánuði. Ég þakka fyrir þá umræðu, bæði mikilvæg og líka mjög jákvætt að fá hér tækifæri til að ræða í þingsal mál sem raunverulega varða þjóðarhagsmuni en ekki fundvísi ríkisstjórnarflokkanna á hin ýmsu hneykslismál. Hagsmunir komandi kynslóða felast í því að við getum skapað hér sjálfbært samfélag í sátt við náttúru og við getum nýtt þær auðlindir sem hér finnast okkur til hagsbóta en að við gerum það undantekningarlaust með umhverfisvernd, hámarksvernd og sjálfbærni að leiðarljósi. Staðan er sú að raforka er vara sem alltaf verður umfram eftirspurn eftir, sérstaklega þegar hún er græn og þegar hún er ódýr, og þannig mun það vera hér á landi sama hversu mikið virkjað er. Það þarf þess vegna að setja það í forgang að dreifikerfi okkar skili þeirri orku sem framleidd er þangað sem hennar er þörf og það sé tryggt líka að við forgangsröðum orkunýtingu í þágu heimila og arðbærs rekstrar. Þá hefur orkumálastjóri til að mynda bent á mikilvægi þess að orka sem við framleiðum rati í samfélagslega mikilvæg verkefni, að markaðurinn verði skilgreindur betur og við pössum að leikreglurnar séu þannig að forgangurinn sé skýr.

Við þurfum að horfa til þess að bæta nýtingu orkunnar. Við erum með sóknarfæri í bættu flutningskerfi, í orkugeymslu og í grænum skrefum sem atvinnulífið getur tekið og um það er fjallað nokkuð í úttektinni, sem er vel. Úttektin er líka að mörgu leyti góð en ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki mikil skörun á milli hennar og þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin af þessari ríkisstjórn í tíð fyrri ráðherra orku- og umhverfismála. Mér þætti áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra um hvort þessi úttekt feli í sér raunverulega breytingu á stefnu ríkisstjórnarinnar í orkumálum eða tvíverknað í þeirri úttekt sem hann hefur staðið fyrir. Ef svo er ekki þá verð ég að segja að mér þykir það býsna merkilegt að þessi vinna sé núna unnin en ekki fyrir fjórum árum. Það er ekki nýtt og það á við um fleiri málaflokka að þessi ríkisstjórn hefur nýtt tímann illa. En þetta er bara svo mikilvægur málaflokkur og svo mikilvægur að það að orkumálaráðherra, auðlindaráðherra ríkisstjórnarinnar sé núna nýr ráðherra, vissulega, en þessi ríkisstjórn sé núna að taka stöðuna fjórum og hálfu ári eftir að samstarf hófst er býsna merkilegt. Á sama tíma og það ríkir enginn ágreiningur um það að við höfum knappan tíma.

Frú forseti. Fáir málaflokkar eru nefnilega brýnni en umhverfis- og loftslagsmálin og þau ættu með réttu að teygja sig í gegnum alla málaflokka þingsins og ríkisstjórnarinnar. Í þessari umræðu er rétt aðeins að líta til þess samfélagslega tjóns sem léleg orkunýting og mengun vegna framleiðslu getur valdið. Við í Viðreisn höfum talað fyrir því að kostnaður samfélagsins af mengun sé metinn til fjár og gjaldlagður í samræmi við það vegna þess að meðan það er ekki gert er til skekkja á markaði sem gerir sóun á orku, sem gerir mengandi losun einfaldlega arðbæra. Öll heimsins markmið, hversu góð sem þau eru, munu lúta í lægra haldi fyrir þeirri staðreynd ef það koma ekki mótvægisaðgerðir. Þetta er svokölluð mengunarbótaregla sem ég tala hér fyrir; þeir sem menga, þeir borga. Síðan er hægt að veita tekjum hins opinbera af slíkri gjaldlagningu í stuðning við græna nýsköpun eða til almennrar skattalækkunar vilji menn svo. Það er í sjálfu sér, ég ætla nú ekki að segja aukaatriði en valfrjálst í ljósi þess hvert markmiðið er. Þeir borga sem menga. Þetta hefur líka í för með sér tvöfaldan hvata til að draga úr losun og stuðla að því að við náum þessum loftslagsmarkmiðum okkar sem eru lykilatriði. Þetta er stórmál í umræðunni um orkuskipti sem geta verið mjög kostnaðarsöm, bæði fyrir almenning og fyrirtæki í landinu þó að þau skili verulegum samfélagslegum ábata. Með öðrum orðum þá tölum við fyrir því að fyrirtæki og heimili sem stuðla að þessum ábata, þessum samfélagslega ábata, fái að njóta þess í formi fjárhagslegs stuðnings á meðan önnur sem vinna gegn þessum sameiginlega ábata eru gjaldlögð, skattlögð. Þannig geta stjórnvöld gert það sem hefur verið vanrækt og það er að virkja kraft einkaframtaksins í þessari baráttu með grænum hvötum í þágu umhverfismála. Við munum ekki vinna þennan slag nema einkaframtakið sé með okkur í liði.

Það skiptir máli, frú forseti, að forgangsraða verkefnum í orkumálum. Þessi úttekt verður vonandi til þess að úr þeim annmarka ríkisstjórnarinnar, þ.e. skorti á forgangsröðun, verði loksins bætt fjórum og hálfu ári eftir að samstarf ríkisstjórnarflokkanna hófst. Það er mikilvægt að við einbeitum okkur að þessum verkefnum og aðgerðum sem skila sem mestum árangri á sem skemmstum tíma.

Orkumál eru eitt mikilvægasta loftslagsmál á heimsvísu. Ef við ætlum að eiga von á því að geta sigrast á loftslagsvánni, kveða hana í kútinn, þá er það forgangsatriði fyrir heiminn að hætta notkun jarðefnaeldsneytis og nota þess í stað endurnýjanlega orku þar sem því verður við komið. Við erum í dauðafæri, (Forseti hringir.) við njótum sérstöðu til að geta verið í forystu í orkuskiptum en við þurfum að búa þannig um hnútana að við fullnýtum orkuna (Forseti hringir.) sem núverandi vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir geta framleitt, til að mynda með uppbyggingu og styrkingu flutningskerfisins um allt land. Við þurfum að huga að losunarþættinum (Forseti hringir.) með öllum tilteknum ráðum, setja kvaðir á framleiðendur orku á háhitasvæðum, binda (Forseti hringir.) kolefni í jörðu og nýta umhverfisvæna framleiðslu.

Frú forseti. Ég er greinilega komin fram yfir tímann sem kemur mér algjörlega í opna skjöldu en ég vil á engan hátt hætta á reiði forseta, þannig að ég stíg úr pontu.