152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[15:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að mér var frekar létt að heyra í hæstv. ráðherra í dag vegna þess að mér þótti ráðherrann vera tiltölulega áhugalaus, ólíkt því sem var hér í gær og í fyrradag, annars vegar í umræðu í þinginu og í fjölmiðlum, þar sem hæstv. ráðherra talaði með þeim hætti að fyrir ekki svo mörgum árum hefði hann líklega verið beðinn að róa sig aðeins á fundi hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, ekki ganga of langt í yfirlýsingum. En hæstv. ráðherra og meiri hlutinn allur hafa áttað sig á því að orkuskiptunum fylgir þörf fyrir aukna orkuframleiðslu. Reyndar hefði maður haldið að þetta væri eitthvað sem hefði átt að liggja fyrir strax í upphafi þegar stjórnvöld sömdu loftslagsstefnu sína en það tók tíma að uppgötva þetta enda var þessi loftslagsstefna auðvitað bara sett fram fyrst og fremst til þess að geta skreytt sig með einhverju á einhverjum fundum sem þá stóðu til erlendis. En jæja, nú eru menn farnir að velta þessu fyrir sér: Hvernig framleiðum við þá orku sem við þurfum til að standa undir orkuskiptunum? Hæstv. ráðherra rifjaði hér upp hvernig hugmyndin um rammaáætlun hefði komið til, hver hefði verið tilgangurinn með henni og bætti svo við, með smá áhyggjutón, að ef þetta gengi ekki eftir þá yrði bara að endurskoða þetta allt saman. Ég hef reyndar heyrt svipaða nálgun frá hæstv. fjármálaráðherra og gott og vel, ég tek undir það. Ef menn ætla áfram að stöðva rammaáætlun þá þarf einfaldlega að endurskoða þetta fyrirkomulag allt. En hvað hefur ríkisstjórnin gert í því? Hvað hefur þessi ríkisstjórn á þessu kjörtímabili og því síðasta gert í því að reyna að þoka rammaáætlun áfram? Ég hef a.m.k. ekki orðið var við það. Svoleiðis að ríkisstjórnin er hér að gagnrýna sjálfa sig rétt eins og hún gagnrýnir sjálfa sig fyrir að hafa selt Íslandsbanka eftir að hafa varað sjálfa sig við áður en hún tók ákvörðunina.

Frú forseti. Loftslagsstefna þessarar ríkisstjórnar er óraunhæf, fyrst við erum að ræða hvernig eigi að ná markmiðum þessarar stefnu. Hún er óraunhæf ekki hvað síst vegna þess að við Íslendingar framleiðum nú þegar það stóran hluta af orku okkar með endurnýjanlegum umhverfisvænum orkugjöfum að það er ekki hægt að ná markmiðunum nema með því sem maður verður eiginlega að kalla svindl, til að mynda með því að taka allt í einu með reikninginn meinta losun úr ræktarlandi, hafandi ekki tekið þessa meintu losun með í reikninginn þegar forsendurnar voru settar og ætla svo að bæta upp fyrir þetta með því að moka ofan í skurði og ímynda sér að með því hafi dregið úr losuninni.

Frú forseti. Svona svindl er nauðsynlegt ætli þessi ríkisstjórn að ná þessum markmiðum. Það sem væri hins vegar betra fyrir loftslagsmál heimsins væri að við framleiddum meira á Íslandi, framleiddum meiri umhverfisvæna orku. En enn er allt á huldu um hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þeim efnum, eins og ég nefndi, en ef við réðumst í það þá myndum við auka verðmætasköpun á Íslandi, við myndum hjálpa heiminum á heimsvísu og við myndum bæta hér lífsgæði.

Ríkisstjórnin virðist ekki heldur hafa tekið eftir þróuninni í alþjóðamálum síðustu vikurnar í þessum loftslagsmálum sínum. Bandaríkjaforseti kallaði nýverið eftir því að Sádi-Arabía myndi auka olíuframleiðslu sína. Menn þekkja vandræði Þjóðverja, Pólverja, Búlgara og annarra sem hafa reitt sig á gasframleiðslu í Rússlandi. Víða er kallað eftir því að Vesturlönd verði sjálfum sér næg, a.m.k. í einhverjum mæli, um framleiðslu á þessari orku sem mun óhjákvæmilega þurfa um fyrirsjáanlega framtíð. Á sama tíma leggur þessi ríkisstjórn til að það verði bannað að ráðast í rannsóknir á hugsanlegum olíu- og gasauðlindum í íslenskri efnahagslögsögu. Þá kem ég aftur að Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og hvernig núverandi hæstv. ráðherra umhverfisins og veðurfarsins hefur náð að toppa þann flokk, a.m.k. eins og hann var fyrir fáeinum árum. Muna menn eftir viðbrögðunum við því þegar þáverandi umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, lýsti því yfir skömmu fyrir kosningar 2009 að hún hefði efasemdir um að Íslendingar ættu að nýta olíu- og gaslindir í íslenskri lögsögu? VG skaut á neyðarfundi og sendi frá sér tilkynningu þegar sama kvöld til að gagnrýna þennan ráðherra sinn og taka það fram að VG hefði ekkert ályktað um það að vera á móti vinnslu á olíu og gasi. En nú eru breyttir tímar og við erum komin með nýjan loftslagsráðherra sem, eins og ég segi, hefði verið líklega svona heldur á jaðrinum í VG fyrir ekkert svo löngu síðan.

Það sem við þurfum að gera, Íslendingar og hæstv. ráðherra og þessi ríkisstjórn, til að bregðast við þörf fyrir umbætur í umhverfismálum er að framleiða meira, búa til raunveruleg verðmæti á þann umhverfisvæna hátt sem við getum gert hér á Íslandi. Ekki ráðast í sýndaraðgerðir eins og að moka ofan í skurði.