152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[15:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég er í grundvallaratriðum ósammála þessari nálgun hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og held að ef allar þjóðir hugsuðu með þessum hætti þá myndum við þvert á móti skapa meira ójafnvægi á jörðinni okkar á tímum þar sem mannkynið er sífellt að verða meira og meira eins og ein stór fjölskylda sem þarf að hugsa með ábyrgð hvert til annars. Hann nefnir líka að orkuskiptum fylgi þörf fyrir aukna orkuframleiðslu og það er auðvitað alveg rétt að einhverju marki. En við þurfum auðvitað líka að huga að aukinni orkunýtni og forgangsraða, jafnvel í þessari dásamlegu húshitun okkar sem við stærum okkur svo mikið af. Við hitum mannvirki upp með grænni orku en við hugum lítið að því að við erum mörgum áratugum á eftir í byggingartækni og sóum orku eins og þetta séu ótæmandi verðmæti, sem þau eru sannarlega ekki.

Framtíðin verður nefnilega að vera græn, annars verður engin framtíð og okkur ber bara að standa við þær skuldbindingar sem við höfum gert, m.a. með Parísarsamningnum, að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040 og markmiðinu um jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Við verðum að hraða orkuskiptum eins mikið og við mögulega getum og nota til þess allar færar leiðir. Við þurfum að beita skipulagsmálum, við þurfum að draga úr umferð einkabílsins og við þurfum að nýta þá orkukosti sem gefast með sjálfbærni að leiðarljósi. Vandinn er auðvitað sá að við búum við óvenjustórbrotna og sérstæða náttúru og við erum auðvitað flest sammála um að okkur ber að vernda þá náttúru eins og frekast er kostur. Við verðum þess vegna að finna eitthvert jafnvægi milli þessara nýtingarsjónarmiða, milli náttúruverðmæta og milli orkuvinnslu.

Við viljum auðvitað ekki virkja okkar fallegustu fossa og fallvötn út í hið óendanlega en við höfum líka tæki til að meta þessa orkukosti og það er rammaáætlun. Rammaáætlun er auðvitað verkfæri sem við eigum og okkur ber að nýta. Við þurfum hins vegar líka að vera opin fyrir annars konar kostum, vindorku, virkjun sjávarfalla, sólarorku og öðrum hlutum sem við komum ekki einu sinni auga á í dag en gætu mögulega verið minni fórnir fyrir náttúruna.

Ég vil rétt að lokum minna hins vegar á að hér fyrir þinginu er þingsályktunartillaga frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur um græn umskipti. Það er ótrúlega mikilvægt þegar við fetum okkur núna leið yfir í hröð orkuskipti að það verði ekki á kostnað hinna tekjulægri, ekki á kostnað þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og það verði yfir höfuð ekki á kostnað þeirra sem hallari fæti standa. En það er ekki nóg fyrir okkur að hugsa á þeim nótum bara gagnvart Íslendingum. Við þurfum, ólíkt hugmyndum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að hugsa þetta hnattrænt og hugsa hlutina þannig að það sé líklegra að með nýrri tækni, með grænni orku, þá getum við nýtt tækifærin til að minnka ójöfnuð í heiminum, ekki auka hann.