152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[15:44]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa frumkvæði að því að taka þetta mikilvæga plagg saman af því að hér erum við að ég held að tala um eitt af okkar allra stærstu málum sem við sem þjóð og samfélag þurfum að fjalla um, það er þessi auðlind sem við höfum sem er orkan í okkar landi. Það eru margar orkuauðlindir og hvernig nýtum við þær sem best fyrir þjóðina? Þetta leikur svo mikið hlutverk hér, hvort sem það er orkuöryggi sem er mikið til umræðu í heiminum í dag og er líka mikilvægt varðandi matvælaöryggi og ég tala nú ekki um velferð þjóðarinnar. Ef við ætlum að halda uppi því velferðarsamfélagi sem við höfum og geta styrkt það enn frekar þá skiptir þetta allt miklu máli. Og þá skiptir máli þegar við erum með svona stóran og mikilvægan málaflokk að við séum með allar upplýsingar á borðinu og getum rætt þetta út frá einhverjum staðreyndum og út frá einhverri skynsemi og verið svolítið á svipuðum stað í umræðunni. Ég held að það hafi tekist vel í þessari grænbók og sé mjög mikilvægt.

Ég held að við höfum því miður ekki nýtt okkur þessar auðlindir nógu vel og ekki tekist að komast nógu langt áfram í því að mynda sátt um nýtinguna og þar af leiðandi að komast í þessa nýtingu fyrir þjóðina, út af þeim atriðum sem ég nefndi hérna áðan. Það er til mikils að vinna að ná einhverri sátt til að geta stigið frekari skref í þessu. Þessi græna umræða sem við erum með hér er nefnilega ekki bara svart/hvít eins og fólk vill oft meina og umræðan vill oft þróast í. Fyrst rammaáætlun er ekki samþykkt þá gerist ekkert í orkumálum eða af því að það hefur ekkert verið virkjað þá gerist ekki neitt. En svo er oft sagt að það sé bara nóg að setja fullt af peningum í nýsköpun og þróun og við ætlum að fara í orkuskipti en þá vantar alltaf hitt, hvaðan orkan á að koma. Það verður að taka þessa umræðu svolítið heildstætt og skoða hana frá öllum hliðum. Eins og hefur komið hérna fram snýst þetta um samspilið á milli, eins og í rammaáætlun: Hvar ætlum við að gera nýjar virkjanir? Hvar ætlum við að auka aflið í þeim virkjunum sem eru núna? Hvar ætlum við að draga úr orkunotkun og spara orku? Hvernig ætlum við að ná betri nýtingu út úr þeirri orku sem við erum með í dag með betra dreifikerfi? Þarna erum við að tala um kerfisáætlanir, löggjöf og reglusetningu og hvernig er hægt að koma þessu upp, fjárfestingar og nýja tækni og það væri hægt að tala lengi um hvern þátt fyrir sig. Svo er það spurningin um hvernig almenningur getur tekið þátt í þessu, með túrbínum upp á þaki og sólarrafhlöðum og öðru slíku þannig að hver og einn gæti orðið svolítið sjálfbærara með orku og það sem er umfram fer þá inn á sameiginlegt kerfi. Það eru smávirkjanir og öll sú nýsköpun sem er fram undan, t.d. er í landbúnaði verið að safna úrgangi frá gripum og öðru og fanga þannig metan sem fer svo á dráttarvélarnar — þetta er allt á fleygiferð.

En það kemur svolítið fram í þessari grænbók að það fer ekki alltaf saman hljóð og mynd. Stjórnvöld eru komin með orkustefnu, þau eru með alls kyns alþjóðlegar skuldbindingar um minnkun á losun, taka þátt í hringrásarhagkerfi. Það er mikið rætt um það að reyna að auka fiskeldi á landi, auka garðyrkju, fanga kolefni. Allt þarf þetta rafmagn. Allt þarf þetta einhverja orku og við verðum þá að vera tilbúin að veita hana. Það er mikið talað um orkuþörfina, og það er eins og ég var að vitna til, þetta er ekki allt svart/hvítt. Það er alltaf sagt: Við skulum, áður en við öflum orkunnar, ákveða í hvað hún á að fara. En ég segi bara að við getum aflað gríðarlega mikillar orku en samt mun það ekki anna þeirri eftirspurn sem er. Það er hægt að skipta þessu í nokkra þætti. Það er þessi almenna notkun sem er bara heimilin og venjuleg fyrirtæki sem eru starfandi í dag. Svo koma allar þessar skuldbindingar sem ég nefndi áðan og orkuskiptin og allt það. Það þarf gríðarlega orku í þetta. En við erum alltaf að tala bara um einkabílinn sem er nú bara brot af þessu. Hvað með flugvélarnar, bílana? Allt atvinnulífið er langt á undan okkur. Sjávarútvegurinn er bara að bíða eftir því að geta fengið reglunum breytt og fengið að tengjast í höfnunum og annað en við erum bara ekki tilbúin, stjórnvöld eru ekki tilbúin. Það eru mörg dæmi um þetta.

Svo erum við að tala um vöxt í núverandi atvinnulífi, það þarf orku í það. Svo getum við farið að tala um ný tækifæri, eins og ég nefndi, í laxeldi, þörungaræktun, gagnaverum o.fl. Allt þetta þarf orku. Þó að við myndum afla gríðarlegrar orku þá hefðum við ekki nóg í allt þetta. Og þá erum við ekki farin að tala um útflutning á orku eins og t.d. á vetni og öðru slíku. Við þurfum að lyfta okkur svolítið yfir þetta, sem þessi grænbók hjálpar okkur að gera. Ég fagna þessari umræðu og við berum mikla ábyrgð í að leiða hana á réttan stað.